Poor Things: Siðspillta og spólgraða leitin að sjálfinu

Tómas Valgeirsson skrifar:


Poor Things er makalaust forvitnileg og lævís skepna í gervi bitastæðs búningadrama með Óskarsverðlaunaglansi. Frá fyrstu römmum liggur í augum uppi að þessi kvikmynd hefur eitthvað mun afbrigðilegra, hvassara, ruglaðra, fantasíukenndara og hugmyndaríkara upp í erminni. Síendurtekið, í tvo(+) klukkutíma. Þvílíka veislan.

Hér höfum við einhverja nýstárlega tegund af Frankenstein-sögu með retró-ívafi en þá í formi farsa; útkryddaðan og marineraðan í gálgahúmor, greddu, femínískri valdeflingu og skilaboðum um að gefa ferköntuðum römmum siðmenningar miðfingurinn á réttum stundum. Auk þess er hér um kvikmyndaverk að ræða þar sem hvergi hefur gleymst að útfæra sjónrænan bíóhluta umgjarðarinnar til hins ítrasta. Mikið allsvakalega tókst hinum gríska kvikmyndagerðarmanni Yorgos Lanthimos að ögra, kitla, fíflast og kafa hér í umfjöllunarefnið og stúdera með miklum glæsibrag og meiri geggjun.

Lanthimos hefur undanfarin ár verið í eins konar sérflokki þegar kemur að því að velta fyrir sér mannlegu eðli, ef til vill umbylta því og stúdera beiskari hliðar þess í gegnum alvarlegan absúrdisma. Persónur í kvikmyndum hans eru oftast ýktar en samsvara þó mjög hversdagslegu eðli. Síðan er auðvitað alveg gúrme einkenni hjá Lanthimos hvað hann er óhræddur við að leyfa svörtum ádeiluhúmor að blæða í gegnum sögurnar.

Á nákvæmlega þeim nótum er Poor Things eins og nokkurs konar útskriftarmynd leikstjórans. Fyrst og fremst er heildarstíllinn miklu litríkari, tilraunakenndari og meira lifandi en fyrri verk (sbr. Dogtooth, The Lobster, The Killing of a Sacred Deer og The Favourite). Hins vegar eru lykileinkenni leikstjórans á sínum stað en á stærri skala; kraumandi krítík hans á óeðlilega eðlileg hegðunarmynstur fólks og samfélaga, með flugbeittum skrifum, skýrum persónum og nóg af kvikindislegu gríni. Lanthimos er fjandi góður í að kanna þröskuld áhorfenda fyrir óhefluðum bröndurum sem hitta á einhvern sannleika.

Reyndar vill svo undarlega til að Poor Things á merkilega margt sameiginlegt með þema og framvindu Barbie ræmunnar (nema… jú, ef myndin væri 16+… og virkilega gröð). Það sem hér er á boðstólnum er frískandi frjó útfærsla á sögu um sjálfsuppgötvun, vegferð að sjálfstæði, að frelsi, að nýjungum og muninum á sjálfsræktun og reglum samfélags eða siðmenntunar eins og hún leggur sig. Lanthimos virðist hafa fá einhverja útrás í að venta með þessari kvikmynd. Og djöfulsins dásemdar útrás er það.

Poor Things er þó ekki bara meistaraverkið hans Lanthimos, heldur sameiginlegt snilldarverk þeirra Emmu Stone. Frá upphafi ferilsins hefur alltaf verið heilmikið varið í Stone og aldrei legið nokkur vafi á að útgeislun hennar gerði heilmikið fyrir bíótjaldið. Val hennar á traustum handritum/hlutverkum hefur ávallt verið í tærum meirihluta fram yfir hið gagnstæða og fjölbreytnin í hennar hæfileikum eykst reglulega (alveg frá stjörnuleik hennar í Easy A til minnisstæðra hlutverka í Crazy, Stupid, Love, Battle of the Sexes, Birdman, Cruella, La La Land og fjölda öðru).

Poor Things markar fullkomin gæða- og kaflaskil fyrir Stone í fagi sínu og legasíu. Hin endalaust ómetanlega Bella Baxter er þá blásin til lífs, persóna sem Stone gjörsamlega hverfur í, en hún er svo gott sem fædd í gær þar sem tilvera hennar skrifast á brjálaðan vísindamann með góðan ásetning og hjarta úr bulli. Bella er forvitin að eðlisfari, enda lítið hleypt úr húsum, og ekki lengi að átta sig á litlu dásemdum lífsins eða líkama síns, réttara sagt. Fyrr en varir berst henni trúlofunarboð úr óvæntri átt og gestaheimsókn sem mun öllu breyta. Framundan er heljarinnar ævintýri og þeysireið í skóla lífsins. Þetta setur neyðina og nöktu konuna í nýjan búning, en leiðin er að minnsta kosti gleið og lífið er stutt.

Persónusköpun Bellu fer í gegnum fjöllaga skala þó kynhvötin sé í brennidepli að mestu. Tónabræðingur leikstjórans þræðir þarna fína línu og ef sál, ringulreið og einlægni Bellu hefði ekki skilað sér í farsanum, hrynur eiginlega restin af stórbrotinni umgjörð niður í innantómt skraut. Lanthimos getur aðeins gert x mikið en Stone hefur áskorunina að bera myndina á herðum sínum með alls konar tilþrifum. Hún er ótvíræður nagli í þessu hlutverki þar sem óttaleysi og heillandi mannúð hennar skín í gegnum absúrdleikann sem umlykur hana. Stone virðist allavega fara létt með að hnoða Bellu í karakter sem á beint erindi í sögub(r)ækurnar.

Því miður hefur undirritaður ekki lesið samnefnda bók Alasdair Gray sem myndin er byggð á en af bíóaðlöguninni að dæma er Bella hreint æðislega skemmtileg sögupersóna. Ferðalag, hindranir og þroskasaga hennar snertir á umræðuverða punkta í tengslum við uppeldi, sakleysi, sakleysismissi, kynvitund, kynhegðun og almenn viðhorf, gildi og getu í lífinu. Eftir því sem lengra líður á fer hálfgert tilraunadýr að stigmagnast í sína eigin forvitnilegu og úrræðagóðu mannskepnu.

Hugarfar Bellu er vægast sagt opið en hún er fljót að læra; hún hugsar hvatvíst, spyr gjarnan ókunnugt fólk óþægilegra spurninga og kann illa að lesa í félagslegt umhverfi; en þó er það aldrei eða sjaldan gert eða hugsað með slæmum ásetningi. Hún vill helst bara lifa; læra, skoða, njóta, ríða og komast nær rótum sínum og eigin svörum um hvar tilgangur hennar liggur í heimi sem seint skal kalla auðveldan, eða beinlínis sanngjarnan.

Bella er hömlulaus einstaklingur í veröld sem sér um að stilla upp nægilega mörgum hömlum fyrir hana. Það sem gerir þó ferðalag hennar sjálfrar svo ánægjulegt er að fylgjast með hvar og hvenær hún lærir að treysta á sjálfa sig í stað þess að lifa á öðrum. Enn fremur, allir sem hefta hana, stangast á við eða frelsissvipta (hvort sem það er af hræðslu, fordómum, óöryggi eða hreinni heimtufrekju) ná umsvifalaust að koma henni hraðar á fasa þar sem hún uppgötvar meira um eigið innsæi, eigin innri og ytri rödd og hvar hún jafnvel metur eigin mörk. Því ákveðnari sem hún verður, því meira fer þetta líka að varpa skýru ljósi á marga í kringum hana. Helsta ráðgátan felst í hvort þær hindranir í vegi Bellu komi til með að styrkja hana eða hvort hún eigi einfaldlega ekki séns á góðum spilum miðað við bakgrunn, ‘aldur’ og sérvisku hennar.

Ef til vill er smá Bella Baxter í okkur öllum; því öll getum við verið barnalega einföld í vissum aðstæðum lífsins (hvort það er að reyna að trúa á það besta í öðrum, upplifa vankunnáttu á einhverjum sviðum eða jafnvel bara líta á heiminn jákvæðum augum). Lanthimos beitir sínum súrrealísku bíóbrögðum og auga fyrir sterkum augnablikum af taktfastri nákvæmni til að fanga þessa hjólgröðu og orkumiklu undrasögu Bellu; alveg frá svellköldum, innilokuðum svarthvítum stíl til abstrakt linsuskiptinga og litríkrar umgjörðar sem er eins og samsuða úr málverkum og á tíðum teikninga úr barnabókum. Heimur myndarinnar er pjúra fantasía en tilfinningarnar og mannlegi þátturinn jarðbundinn, óþægilega hreinskilinn og hnitmiðaður. Stundum er besta leiðin til að ná fram hinu viðtengjanlega eða erfiðum staðreyndum lífs oft sú að nálgast það á hinn ýktasta máta.

Mætti nánast einnig segja að flestir aukaleikarar gegni svipuðu hlutverki og andrúmsloftið þegar Stone hefur forgrunninn og sviðsljósið ein, en að því sögðu er hvergi feilnóta slegin hjá yndislega kómískum tilþrifum aukaleikaranna. Þar er brýnt að nefna mottu-Mark Ruffalo (sem hefur sjaldan eða aldrei verið fyndnari), Ramy Youssef, Jerrod Carmichael, Margaret Qualley og vissulega Willem Dafoe, ókrýndan konung tignarlegu furðufuglanna.

Dafoe tekur nýjan snúning á ‘Frankenstein’ fígúrunni, sum sé skapara Bellu (Godwin að nafni, eða “God”…), og heldur hann andliti meistaralega í karakter sem á sér helsjúka en sjúklega skondna baksögu, sem og prófíl með nánast engan mögulegan líka. Þarna er einmitt gegnumgangandi styrkur hjá leikstjóranum hvernig hinir brengluðustu hlutir eru teknir alvarlega. Á móti kemur heilmikið sprell úr óþægilegri köflum sögunnar. Það er trúlega þetta listilega magn svona þversagna í útfærslu Lanthimos sem gefur skörpu en óvenjulegu handriti sinn galdur.

Það er ekkert svo hæpið að kalla Poor Things ‘sci-fi’ kynlífskómedíu eða ævintýrasögu fyrir fullorðna en óneitanlega er myndin nánast sú eina sinnar tegundar. Hún er lúmsk en æpandi (til dæmis hvernig gólað er í þaula hvað skapari Bellu er kallaður…), einnig óþægileg og upplífgandi, stórskrítin en sjarmerandi, truflandi á tíðum í innihaldinu en með ólíkindum falleg í draumkenndu myndmáli (með tilheyrandi hrósi í garð tónlistar, brellna, búninga, sviðsmynda o.fl.). Það sem mestu máli skiptir er einfaldlega skemmtanagildið og hvernig geggjunin rígheldur út í gegn með uppákomum í öllum litum, formum og tónum. Sem blússandi bónus fylgir líka sneisafullur sarpur af meiriháttar frösum sem gulltryggja að lengi verður hægt að vitna í senur og línur löngu eftir að áhorfi er lokið. Bella skilur allavega ýmislegt eftir í kollinum, eins og henni er líkt. Lengi lifi hún.

Í styttra máli:
Leiksigur Emmu Stone er óumdeilanlegur og þessi prakkaralega, marglaga og meinfyndna kvikmynd er ferlega frískandi bíó og það meira. Djöfulsins snilld.