Natatorium: Á suðupunkti í sundlaug dauðans

Tómas Valgeirsson skrifar:


Eflaust hafa flestir einstaklingar á skerinu okkar kalda upplifað matarboð, segjum jafnvel fjölskylduboð, þar sem allt spilast út á yfirborðinu eins og í tryggingaauglýsingu. Allt tikkar í ákveðin box formlegra félagslegra viðmiða en samt er einhver óþægilegur andi í loftinu. Þá fara óuppgerð mál með ósagðri togstreitu á milli fólks að krauma undir yfirborðinu. Eflaust er óhjákvæmilegt að allt fari á suðupunkt, enda er endemis kvöl að halda andliti fyrir einhverja ímynd um fullkomið félags- eða fjölskyldulíf þegar raunin er allt önnur. En því lengur sem eitthvað er ósagt, því háværari verður þögnin. 

Hvert suðupunkturinn leiðir veltur auðvitað á dýpt sára þeirra sem eiga í hlut. Brotin fjölskyldubönd tryggja hraðvirka leið að ýmiss konar sárum, líkamlegum og andlegum. Og kvölin verður hraðvirkari þegar nákominn aðili talar í afneitunum líkt og það væri móðurmálið.

Afneitun, bæling og félagslegar grímur eru fínasta fóður fyrir þennan hryllingsfíling sem dramatryllirinn Natatorium gælir við. Sagan hefst þegar hin 17 ára Lilja þiggur að búa tímabundið hjá ömmu sinni og afa. Eldra settið tekur henni fagnandi en föður hennar og frænku líst ómögulega á málið. Kvöld eitt leiðir forvitni Lilju til þess að hún uppgötvar dularfulla sundlaug í kjallara hússins. Þá rýkur upp spennan innan fjölskyldunnar og ljóst er að tíminn læknar ekki alltaf öll sár. Fyrst þarf að viðurkenna vandann til að takast á við hann en það er hægara sagt en gert. Aðgerðarleysið heldur vítahringnum gangandi.

Natatorium er áhugavert frávik í íslenskri kvikmyndagerð. Bæði er hún ferlega týpísk íslensk mynd og að öðru leiti alls ekki. Hún er annars vegar ótrúlega frábrugðin hinni klassísku (og víða hötuðu) formúlu íslenskra mynda um síþrasandi fjölskyldur, brotin tengsl, fortíðardrauga eða eymdardrama út frá slíkum þáttum og hins vegar er hún mjög svo ‘íslensk’, þar sem tengingarleysi, tilfinningaspenna, harmleikur, fíkn, melankólía og kynslóðaerjur tröllríða öllu. Sum sé; á blaði er ískyggilega margt klént, dæmigert og endurunnið við grunn sögunnar sjálfrar, en úrvinnslan grípur og hér er mikið til að dást að.

Myndin er lifandi, þrúgandi, táknræn, minimalísk og nægilega stílíseruð og uppfull af spennandi litlum afhjúpunum til að taka eitthvað sígilt/dæmigert úr frystinum og sósa yfir ófrumleikann með seiðandi ferskleika. Úr þessu kokkast upplifun sem er kunnugleg og í senn algjört kex. Gott báðum megin.

Við fyrstu sýn finnur áhorfandinn fyrir opnari örmum í andrúmsloftinu þegar Lilja mætir fyrst heim til eldra settsins, enda virðist allt vera fullkomlega normalt eða svo gott sem. Stemningin er þó fljót að kólna þegar tengsl, baksaga og mynstur fjölskyldunnar skýrast betur. Það má finna fyrir krauminu og þessum tilvonandi suðupunkti, nema yfirþyrmandi dulúðin og ekki síður lágstemmdi hversdagsleikinn í leikstjórn Helenu Stefánsdóttur fyrirbyggir reglulega í hvað nákvæmlega stefnir eða hvernig. Því sem um ræðir eða kallar á kaflaskil í samskiptum fjölskyldunnar er dreift út með ljótum en lokkandi brauðmolum. 

Helena treystir á þolinmæðina, skuggalegt ljóð- og táknrænt myndmál og mjólkar eftirvæntinguna fyrir mögulegu stóruppgjöri eins og heimsendir sé í nánd. Hlutir eru sjaldan eða aldrei útskýrðir í þaula svo áhorfendur í símanum nái tökum á innihaldinu. Þetta er ekki mynd sem veitir einföld svör eða neinar asnalegar útskýringar en lumar á svo miklum djús milli línanna með skýrum smáatriðum (e. brauðmolum) að dramarússíbaninn rígheldur og lofar góðu. Hvort áfangastaðurinn skili góðri bombu eða ekki, eða hvort stemningin verði jafn sterk undir lokin og uppbyggingin fram að því, er aðeins flóknara svar.

Styrkur atburðarásarinnar kemur í hægum bruna handritsins , forvitnilegum eða gjarnan óútreiknanlegum ákvörðunum persóna og sparsamri upplýsingadælu. Ljóst verður strax að hver og einn einasti karakter veit miklu meira um hvað er í gangi en Lilja. Stundum erum við skrefi á undan henni, stundum skýst hún fram úr áhorfendum sem fá mismunandi tækifæri til að endurmeta dómgreind sína á persónum frá því sem fyrst blasir við. Þetta mótíf virkar þarna prýðilega, enda eru hér ríkjandi þemu sem segja að stundum þekkjum við aldrei okkar nánasta fólk fyrr en ákveðnar aðstæður sýna það í réttu ljósi. Erfiðasta skrefið er oft að horfast í augu við þungbæran sannleika, um okkur sjálf eða aðra sem við tengjumst. En hvað svo? Hversu slæmt þarf ‘slæmt’ að vera til að tengslin verði aldrei þau sömu aftur? 

Með handriti og leikstjórn Helenu rammar hún inn eðlilegan veruleika í merkilegt lítið og abstrakt tjáningaverk um þörf á tjáningu. Hlaðin samskipti, baktal, fordæming eða ein virkilega, VIRKILEGA vafasöm sundlaug leiðir þá tifandi tímasprengju af hryllingi, lygum eða leyndarmálum sem Lilja og hennar fjölskylda hefur lítið val um að flýja. Flóttinn hefur mallað í fjölda ára sem gerir gruninn og tilfinninguna fyrir komandi uppgjöri nánast óþægilegri en pjúra óvissa fyrir því hyldýpi sem allt siglir (eða syndir…) í. Natatorium er ferskur andblær í okkar íslensku bíóflóru og skorar hátt í umgjörð og stúderingu á opnum sárum, þögnum og hollustuklemmum, svo dæmi séu nefnd. 

Ákveðinn galli er þó í dulrænni nálgun sögunnar þegar keyrslan er jafn minimalísk og upplýsingagjöfin er. Eins og það þykir yfirleitt sterkt að fikta við ‘less is more’ nálgun, þá er fórnarkostnaðurinn sá að við fáum góða mynd af öllum helstu persónunum… nema Lilju. Hún er í rauninni bara peð í dulúðinni sem límir saman atburðarásina og er því miður furðu persónuleikasnauð. Hún er meira yfirlýsing í formi karakters en þrívíð persóna. Við vitum að hún er hæfileikarík, blíð, geðþekk en karakterinn svífur á milli annarra þar sem mun meira er að frétta, yfirleitt. 

Stefanía Berndsen eignar sér myndina skuldlaust og skattfrjálst sem Vala, frænka Lilju og ‘svarti sauður’ fjölskyldunnar, sem er fordæmd í kássu fyrir að segja sumt upphátt sem aðrir þora síður að tala um þó allt bendi til að Vala sé rödd skynseminnar í sögunni. Mannkostir hennar eru fjölskyldufólki hennar gjarnan ósýnilegir sökum þess að gallar hennar (drykkjan, aðallega) leyna sér ekki, þó hver og einn í kjarnahópnum eigi sína flóttaleið.

Arnar Dan Kristjánsson leikur Magnús, pabba Lilju og eldri bróður Völu, með glæsibrag. Hann er akkúrat þessi ídeal táknmynd gæjans sem náði ágætis stöðu í lífinu en er á móti einstaklega lokaður, hálf ferkantaður og jafn týndur og þau innan hópsins sem mega minna missa eða bera dýpri sár. Á nákvæmlega þeim nótum er samband Völu við Kalla, hinn bróðirinn. Það er sennilega sterkasti þráðurinn í allri myndinni, en Kalli fékk önnur spil í lífinu og þjáist af margvíslegum ástæðum sem eiga sér rótgrónar tengingar við æskuna, og vissulega móður sína. Jónas Alfreð Birkisson sýnir stórleik með biti í rullu sem þarf að skila miklu af sér með fáum eða engum orðum, sérstaklega þar sem Kalli er eins konar persónulegur Jesús móður sinnar.

Ekki er hægt að segja að neinn leikaranna slái feilnótu eða neitt nálægt því, en prófílar persóna fara svolítið að þynnast þegar kemur að hinum. Elin Petersdottir er feiknagóð sem Áróra, amman sem á tíðum er eins og hún hafi stigið út úr dökkum farsa sökum þess hversu stíf og strangtrúuð hún er. Oftar en ekki er Áróra nokkrum rauðum fánum frá því að vera dæmigerður andstæðingur í töktum en reyndar er það ‘kurteisisgríma’ hennar sem er  meira truflandi en nokkuð annað. Þetta er gríma sem segir eitthvað í líkingu við: „Hlýddu, vertu til friðs, brostu og jánkaðu… eða þú færð að kenna á því. Leitt er að vísu hvað hún ber örsjaldan merki um eitthvað marglaga en dansar við mörk ákveðins skrípaleiks. 

Valur Freyr Einarsson gerir sitt besta úr býsna þunnum díl. Hann kemur stórvel út sem eiginmaður Áróru, einstaklingur sem oftast bara hlýðir og tekur enga afstöðu, en leikarinn sjálfur hefur ekki úr miklu að moða þó nærveran sé kærkomin. Það sama á við um fantafínan Storm Jón Baltasarsson í hlutverki Davíðs, kærasta Lilju. Hvað vitum við um hann? Í rauninni ekkert, nema að hann er alltaf til taks þegar sagan þarf á honum að halda. Sama og ekkert er gert við samband þeirra Lilju á manneskjulegri nótunum. Hann er eiginlega bara uppfylling og kemur þegar hann er kallaður en bætir litlu við. Það er annað en Kristín Pétursdóttir gerir sem Írena, nýja barnsmóðir Magnúsar. Þau Davíð sýna þó í sameiningu hvernig fersk augu utanaðkomandi einstaklinga geta sprengt þessa blöðru sem aðstæður og blóðbönd hafa blásið upp í sögu fjölskyldu Lilju.

Frammistaða Ilmar Maríu Arnardóttur í aðalhlutverkinu er hljóðlátari en hjá hinum en eftirminnileg og Ilmur er meiriháttar góð, nema hvað handritið gerir ofsalega lítið fyrir hana. Trúlega gæti það verið viljandi að Lilja komi út sem óskrifað blað eða aukapersóna í eigin þroskasögu þegar hinir og þessir einstaklingar reyna að toga hana í sína átt. Útgeislun Ilmar og aðlaðandi sjarmi kemur allur frá aðalleikkonunni en ekki blaðsíðunni. Endirinn gliðnar síðan í dramatískum þunga þegar sögupersónan er svona passíf, þó ‘boðskapurinn’ skili sér vissulega. 

Vel á minnst… þá stuðaði það undirritaðan allsvakalega í seinni helmingnum þegar persónur fara að deila um hvort áðurnefnd sundlaug standi tóm eður ei. Í ljósi þessarar kraumandi stigmögnunar í dramanu er býsna frústrerandi hversu margt hefði verið hægt að leysa miklu fyrr, hefði ekki nema aðeins einn karakter lagt fram spurninguna: Hvernig væri að kíkja öll niður og við staðfestum hvort sundlaugin sé þarna eða ekki? í stað þess að fullyrða sitthvorn hlutinn í sama djöfulsins húsi og laugin, og bara spekúlera…

Hægt er að afskrifa þetta sem enn einn flóttann eða tengja við afneitun persóna, en það nær samt engri átt hvað fólkið skortir mikla einfalda forvitni. Þegar spilaborgin byrjar svo að hrynja í magnandi alvarleikanum er trúverðugleiki svo sem ekki gild krafa að hálfu áhorfandans. 

Eftir stendur svolítill anti-klímax á draumkenndri dæmisögu í stað þess að vera hjartahögg í súrrealískri karakterstúdíu. Vissulega er þetta ‘byrjunarverk’ Helenu en það geislar svo mikið sjálfsöryggi fyrir samsetningunni að Natatorium ber engin öskrandi merki um að vera fyrsta mynd nokkurs. Þessir mínusar í handritinu hefðu meira skyggt á tón heildarinnar ef Helena hefði ekki svona meistaralega gott auga og teymi með sér. Myndin stórgræðir á glæsilegri kvikmyndatöku, frábærri hljóðvinnslu, geggjaðri leikmynd, þéttri klippingu og fríkuðu myndmáli sem segir meira en samtölin almennt, en á besta máta. Helena fær reyndar líka aukastig fyrir að krydda söguna með dökkum en skemmtilegum húmor á óvæntum stöðum.

Ef Natatorium er metin á þeim basis að vera frumraun Helenu í fullri lengd, verður býsna spennandi að sjá hvað meira býr í henni í framtíðinni. Lokaútkoman nær kannski ekki alltaf tilsettum markmiðum í metnaðinum en hæfileikarnir eru klárlega þarna í miklum mæli. 

Í styttra máli:
Ferskur snúningur á kunnuglegt form. Frábærlega unnin og flott sýn sem hefði mátt bæta sig í persónudýptinni, en þrumufrumraun þó frá Helenu Stefánsdóttur.