Lætur fólki líða betur með sjálft sig og lífið

„Við kláruðum myndina í byrjun ágúst. Nú bíður maður bara spenntur eftir viðbrögðum áhorfenda í bíó,“ segir Snævar Sölvi Sölvason leikstjóri kvikmyndarinnar Ljósvíkinga í samtali við Kvikmyndir.is en myndin verður frumsýnd næstkomandi föstudag.

Hann lýsir myndinni sem “feel-good” kvikmynd. “Nokkrar af mínum uppáhaldsmyndum eru eftir leikstjórann Alexander Payne, myndir eins og Sideways og Descendants og einnig ræmur eins og Little Miss Sunshine og As Good As it Gets,” segir Snævar beðinn um að lýsa stemmningunni í Ljósvíkingum. „Þetta eru svona kvikmyndir með litríkum og heillandi persónum, myndir þar sem talað er um lífið og tilveruna. Og þó að það sé kannski basl á fólkinu eru menn alltaf að reyna að finna ljósið. Markmiðið var að gera mynd sem lætur fólki líða betur með sjálft sig og lífið.“

Stærsta til þessa

Ljósvíkingar er stærsta kvikmyndaverkefni Snævars til þessa. Áður hefur hann sent frá sér Albatross og Eden. Þá var hann leikstjóri sjónvarpsþáttanna Skaginn sem sýndir voru á RÚV. Þeir fjölluðu um karlalið fótboltaliðs ÍA sem vann það ein­staka af­rek að verða Íslands­meist­ari fimm ár í röð, frá 1992 til 1996. Þættirnir fengu fjölmiðlaverðlaun KSÍ fyrr á þessu ári.

Snævar segir að Ljósvíkingar eigi sér tíu ára aðdraganda en ekki hafi alltaf verið ljóst hvort að af henni yrði eða ekki. Þó var að hans sögn alltaf ákveðinn spenningur fyrir handritinu. „Ég fékk mjög góða umsögn hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands fyrir fyrsta uppkastið, bæði á fyrsta stigi og á lokastigi umsóknar. En það er orðið langt síðan. Það hefur tekið tíu ár að koma þessu á koppinn. Þetta er fyrsta fullfjármagnaða kvikmyndin mín.“

Á tímanum sem liðið hefur síðan 2014 hefur Snævar sinnt ýmsum verkefnum en hann segir að framleiðendurnir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson hjá Kisa hafi alltaf viljað keyra verkefnið áfram. Þeim hafi fundist sagan þess virði að segja hana. “Þeir pressuðu þetta áfram. Ég er ánægður með að þeir ýttu þessari lest af stað.”

Kærkominn styrkur

Um fjármögnun segir Snævar að myndin hafi fengið vilyrði frá Kvikmyndamiðstöð. Það hafi verið notað til að liðka fyrir öðrum styrkjum en myndin fékk norrænan styrk og meðframleiðendur fundust bæði í Finnlandi og Tékklandi. Þar með var björninn unninn.

„Það var kærkomið. Norræni styrkurinn fleytti okkur í gegnum ferlið. Það styrkir umsóknina til Kvikmyndamiðstöðvar að hafa nöfn utan landsteinanna. Það gefur verkefninu trúverðugleika.“

Snævar ítrekar að kvikmyndin sé fyrsta myndin sem hann gerir faglega frá a-ö. Til dæmis hafi leikaraval verið unnið í samstarfi við ráðningarskrifstofuna Doorway.

Ljósvíkingar (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn8

Þegar tveir aldagamlir vinir fá óvænt tækifæri til að hafa fiskveitingastaðinn sinn opinn árið um kring, kemur annar þeirra út úr skápnum sem trans kona....

„Allir leikarar voru boðaðir í prufur. Svo fékk ég upptökur sendar. Í hinum myndunum mínum vann ég bara með þeim sem ég þekkti, beggja vegna myndavélarinnar. Ég hafði ekki efni á að borga toppprís.”

Í myndinni koma málefni trans fólks meðal annars við sögu en árið 2014 voru þau minna til umræðu en í dag. “Það er lán í óláni að kvikmyndin hafi frestast svona. Í dag eru líklega fleiri móttækilegir fyrir svona umfjöllun.”

Heillandi að sækja nýveiddan fisk

Snævar segir að í fyrsta uppkasti handritsins hafi hann verið tilbúinn með sögusviðið; fiskveitingastað á Ísafirði. Honum fannst heillandi hugmynd að láta persónurnar sækja sér nýveiddan fisk niður á bryggju og elda svo á veitingastaðnum. Það talaði beint inn í kviku þjóðarinnar. „Svo langaði mig að gera svona veitingahúsamynd, mynd um matarmenningu, fisk og vín. Það hefur aldrei verið gerð þannig mynd á Íslandi áður, mynd sem rómantíserar matarmenningu og veitingahúsalífið. Þannig að þar er ég með eitthvað smá nýtt fram að færa.”

Snævar segir að eftir að hann var búinn að móta sögusviðið hafi hann farið að velta fyrir sér sögunni. „Ég vildi fjalla um vináttu, um vini sem sinnast í starfi og þurfa að sættast. En ég vissi ekki hvaða element ég ætti að nota til að láta vinina togast á. Einhvern tímann var ég að horfa á heimildarmynd um eldri samkynhneigða menn í New York sem voru nýlega komnir út úr skápnum. Einn af þeim var trans. Þá kviknaði á ljósaperu. Ég veit ekki afhverju en ég fékk þessa tilfinningu að þetta væri eitthvað sem ég ætti að nota. Þarna kallast á breytingar og nýjungar sem koma fólki kannski spánskt fyrir sjónir. Ég fann að ég var kominn með DNA strenginn sem vantaði til að flétta allt saman saman við fiskinn, sjóinn og það allt.“

En eins og Snævar úskýrir leið tíminn áfram og nokkru síðar kom Me-Too byltingin sem ruddi einnig brautina fyrir aukna umræðu um málefni hinsegin fólks.

Anna og Veiga lásu yfir

Snævar leitaði til trans kvennanna Önnu Kristjáns og Veigu Grétars, kajakræðara frá Ísafirði, um yfirlestur handrits. Hann segir það hafa verið ómetanlegt.

„Anna las fyrsta uppkast og gaf ráðleggingar. Ég hitti hana á Tenerife. Við tókum margra klukkustunda spjall um söguna.”

Hann segir að þegar Júlíus og Ingvar vildu reyna að koma myndinni á koppinn í eitt skiptið enn árið 2021 hafi Snævar áttað sig á að það var eitt og annað í handritinu sem hann þurfti að uppfæra í takt við tímann. Margt hafði til dæmis gerst í málefnum trans fólks á tímabilinu. “Í gömlu atriðunum voru hlutir sem áttu ekki við lengur. Veiga hjálpaði mér mikið og hennar aðkoma breytti leiknum algjörlega.”

Snævar segir að aðstoð hennar hafi verið svo mikilvæg að hennar er nú getið sem meðhöfundar að sögunni.

Eftir aðkomu Veigu var ekkert að vanbúnaði lengur. „Ég sagði Júlíusi og Ingvari að ég væri tilbúinn. Við skyldum nú gera allt sem við gætum til að landa þessu.”

Um leikaravalið í myndina segir Snævar að hann hafi verið með óskalista með leikurum sem hann hafði mikið dálæti á. Hann hafi á endanum fengið 90% af þeim sem hann óskaði sér. „Á listanum voru allir þessir aðalleikarar eins og Helgi, Ólafía, Björn Jörundur, Arna Magnea og svo Hjálmar Örn og Vigdís svo ég nefni nokkur, auk Söru Daggar og Sólveigar Arnars. Ég er hæstánægður með hvernig til tókst.”

Extra góður mórall

Tökur myndarinnar hófust í október 2023. „Við fengum grænt ljós hjá Kvikmyndamiðstöð í febrúar sama ár. Svo var farið í að sækja um norræna styrkinn. Það gekk mikið á í fyrra en allt gekk þrusuvel upp á endanum. Maður gerði dálítið miklar kröfur á fólk að biðja það að flytja til Ísafjarðar í einn og hálfan mánuð fjarri fjölskyldu og vinum. En við það myndaðist extra góður mórall. Við borðuðum saman á hverjum kvöldi og höfðum ofan af okkur saman um helgar. Fólk eignaðist nýja vini í þessu verkefni. Ég sá ekki betur en allir yrðu alsælir og mjög ánægðir. Mér finnst það hafa smitast út í myndina. Það er góður fílingur í henni að mínu mati og annarra.“

Snævar bíður nú spenntur eftir frumsýningardeginum. „Maður er vongóður enda sáttur við allt. Allt er til fyrirmyndar. Og ég fíla sjálfur myndina og get horft á hana aftur og aftur,” segir Snævar.