Besta kvikmynd snillingsins Woody Allen, en hún hlaut óskarsverðlaunin sem besta kvikmynd ársins 1977. Sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og jafnframt sambandsleysi hans við leikkonuna Diane Keaton sem var ástkona hans í tæpan áratug. Hér er urmull hinna einstöku Allens-brandara og pælinga um ástina, en líka dýpri og innilegri íhuganir, enda er Annie Hall persónulegasta mynd Allens fyrr og síðar, gerð af einstakri hlýju og skilningi og ekki síst léttum húmor. Mörg einstaklega góð atriði, stór og smá, en Allen hreppti bæði óskarinn fyrir leikstjórn sína og handritið ásamt Joseph Marshall. Annie Hall fjallar um stormasamt samband grínista við söngkonu sem á sér háleit markmið í lífinu og mikla drauma. Inn á milli fljóta hressilegir brandarar og athugasemdir um lífið og tilveruna að hætti Allens. Diane Keaton hlaut óskarsverðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Annie Hall. Hún fer á kostum í hlutverkinu og vinnur þar stærsta leiksigur ferils síns. Það eru hinsvegar fáir sem vita að raunverulegt nafn leikkonunnar er Diane Hall, þaðan kemur eftirnafn aðalsöguhetju myndarinnar. Ég mæli eindregið með þessari stórkostlegu kvikmynd við allt kvikmyndaáhugafólk. Klassísk kvikmynd í kvikmyndasögunni sem verðskuldar ekkert minna en fjórar stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei