Eftir að hafa séð nokkrar frábærar myndir eftir Christopher Nolan áður en ég sá þessa mynd, m.a. Batman myndirnar og The Prestige þá var ég á þeirri skoðun að Christopher Nolan væri góður leikstjóri, en nú er ég á þeirri skoðun að hann sé SNILLINGUR!
Það er eiginlega ekki hægt að segja frá söguþræði Memento nema það er hægt að segja að hún fjalli um manninn Leonard (Guy Pierce) sem að þjáist af skammtímaminni. Hann man allt um líf sitt þangað til að konunni hans var nauðgað og hún var drepin. Eftir það getur hann ekki myndað nýjar minningar og því er mjög erfitt fyrir hann að komast að því hver drap konuna hans. Hann fer að taka myndir og skrifa á miða til að muna hvað hann hefur komist að. En annað fólk getur haft áhrif á hann og hann veit ekki lengur hverju hann á að trúa og hvernig hann eigi að hefna konunnar sinnar.
Þessi mynd er algjör snilld, sagan er sögð í mjög skrítinni atburðarás sem veldur því að maður skilur ekkert hvað hefur beinlínis gerst fyrr en í enda myndarinnar.
Myndin er bæði í svarthvítu og lit til að undirstrika mismunandi frásagnir. Myndin heldur manni alveg giskandi og á tauginni allan tímann. Ég myndi alls ekki mæla með að fólk horfi á hana í nokkrum pörtum því það þarf að horfa á hana í heild og gefa sér góðan tíma til að pæla í henni.
Þetta er mynd sem að maður þarf að ræða lengi um þegar hún er búin og því er hún frábær til að horfa á með vinum. Eftir að hafa séð Memento get ég sagt að Christopher Nolan sé ein besti leikstjórinn í dag og get ég ekki beðið eftir að sjá nýja meistaraverkið hans, Inception!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei