Stórfengleg og vel leikin kvikmynd um ævi stærðfræðisnillingsins John Forbes Nash. Tilnefnd til 8 Óskarsverðlauna 2001 en hlaut fern; sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Ron Howard, leikkonu í aukahlutverki (Jennifer Connelly) og handrit byggt á áður útgefnu efni. Einnig tilnefnd fyrir leikara í aðalhlutverki (Russell Crowe), kvikmyndatónlist, förðun og kvikmyndaklippingu. Hér er rakin saga nóbelsverðlaunahafans og stærðfræðisnillingsins Nash (Crowe) sem hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1994, eftir einstakan feril. Sagan hefst árið 1947 þar sem hann er við nám í Princeton. Strax er ljóst að hann er ekki eins og venjulegt fólk á að sér að vera, er bæði sérvitur og einkar ómannblendinn. Í náminu kynnist hann Charles Herman (Paul Bettany) og er vinátta að því er virðist einstök og ósvikin. Eftir námið fær Nash prófessorsstöðu við virtan háskóla og svo virðist sem hann muni feta hinn beina og greiða veg, þegar hann kynnist nemanda sínum Aliciu (Connelly) og verður hrifin af henni. Það breytist þó allt þegar í ljós kemur að stærðfræðisnillingurinn er geðklofi. Mögnuð úrvalsmynd á allan hátt. Ron Howard hlaut verðskuldaðan óskar fyrir leikstjórn sína, einnig er tónlist James Horner stórfengleg, handrit Akiva Goldsman er vandað og kvikmyndatakan stórgóð. Leikur aðalleikaranna er þó aðall myndarinnar. Óskarsverðlaunaleikarinn Russell Crowe (Gladiator) fer hreinlega á kostum í hlutverki stærðfræðisnillingsins og túlkar persónu hans og andlega erfiðleika óaðfinnanlega og vinnur sannkallaðan leiksigur í mögnuðu hlutverki, hann hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir leik sinn í þessari mögnuðu mynd, og hefði átt að hljóta Óskarinn einnig fyrir túlkun sína, en tapaði þeim slag fyrir Denzel Washington. Þetta er besta leikframmistaða hans að mínu mati. Jennifer Connelly er stórfengleg í hlutverki Aliciu Nash og vinnur leiksigur með sannfærandi leik sínum og átti Óskarinn svo sannarlega skilið. Einnig eru Ed Harris, Paul Bettany, Adam Goldberg og Christopher Plummer góðir í sínum hlutverkum. Þetta er kvikmynd sem enginn sannur kvikmyndaunnandi má láta fram hjá sér fara. Eðalmynd eins og þær gerast bestar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei