Ég hef alltaf haft töluverðan áhuga á kafbátamyndum og í gegnum mína tíð hef ég séð ansi margar slíkar (The Hunt for Red October, Crimson Tide, U-571 og auðvitað móðurmyndin Das Boot o.fl.) og flestar hafa verið bara helvíti spennandi og taugastrekkjandi (enda finnur maður vel fyrir óttanum hjá mönnum sem eru innilokaðir í stálhylki undir mörgum tonnum af sjó) og þessi getur svo sannarlega farið að skipa sér í svipaðan flokk. Vissulega veit maður hvernig þetta fer allt í endann en atburðarásin er á köflum svo spennandi að maður steingleymir öllu slíku.
Harrison Ford og Liam Neeson standa sig líka sérlega vel í hlutverkum sínum, og einnig var nokkuð gaman að sjá íslenska gæðaleikarann Ingvar Sigurðsson viðstaddan á svæðinu, sem einnig stóð sig vel í mikilvægu hlutverki þrátt fyrir að hafa átt kannski u.þ.b. 5-6 línur allt í allt.
Myndin fær einnig sérstakt hrós fyrir tæknibrellur og afbragðs kvikmyndatöku, og það helsta sem dregur einkunnina er endirinn. Hann er voða daufur þar sem að leiðinleg tónlist og óbærileg melódramatík taka völdin, en annars fór það ekkert mikið í taugarnar á mér, því fyrstu tveir tímarnir sjá um að bæta upp fyrir það.
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei