Náðu í appið
Öllum leyfðÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

Adaptation. 2002

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 7. mars 2003

Charlie Kaufman writes the way he lives... With Great Difficulty. His Twin Brother Donald Lives the way he writes... with foolish abandon. Susan writes about life... But can't live it. John's life is a book... Waiting to be adapted. One story... Four Lives... A million ways it can end.

114 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 90% Critics
The Movies database einkunn 83
/100

Handritshöfundurinn Charlie Kaufman þjáist af ritstíflu og endar með því að skrifa sjálfan sig inn í nýjasta handrit sitt, sem að upphaflega átti að vera byggt á bók um blómadýrkun.

Aðalleikarar


Adaptation er besta mynd Spike Jonze. Þó Being John Malkovich sé frábær mynd, þá er þessi bara svo langt um betri. Allt er gert fagmannlega: Leikstjórn Spike Jonze góð, sagan frumleg og skemmtileg, handrit Charlie Kaufman í toppklassa og er hann einn besti storyteller í bransanum, persónusköpun frábær og klassa leikarar í hverju hlutverki. Nicolas Cage og Meryl Streep eru góð, en Chris Cooper er magnaður og vann leiksigur í þessari mynd og fékk öll þau verðlaunum sem hægt var að fá fyrir magnaða frammistöðu sína, og verðskuldað. Meisaraverk sem er algjört skylduáhorf. Besta mynd ársins 2002.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Adaptation er önnur mynd leikstjórans Spike Jonze en síðast gerði hann Being John Malkovich en þessar tvær eru í sama anda. Þær fjalla báðar um menn sem eru til og er mjög skrýtnar. Adaptation fjallar um handritshöfundinn Charlie Kaufman (Nicholas Cage) sem gengur ekki mjög vel í lífinu enda er aðaláherslan lögð á stress og örvæntingu. Hann er að hamast í að skrifa handrit byggt á bók Susan Orleans (Meryl Streep) Orkedíuþjófurinn. Orkedíuþjófurinn fjallar um plöntuáhugamann (Chris Cooper í Óskarsverðlaunahlutverki) sem er heillaður af einu sjaldgæfasta blómi í heiminum sem heitir Draugaorkedían. Kaufman á bróðir sem er einmitt öfugt við hann. Bróðir hans heitir (eða hét) Donald Kaufman (sem er líka leikinn af Nicholas Cage) en hann er að skrifa handrit að sálfræðihrollvekju sem heitir Three. En þegar Charlie er orðinn skotinn í Susan (en hefur ekki einu sinni hitt hana) og það kemur margt óvænt upp þannig að líf Charlie's er allt í einu orðið mjög skrýtið. Adaptation er örugglega með betri myndum árið 2003 en hún er kannski ekki fyrir alla smekki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

En hvað mér finnst gaman að þessir tveir menn, Spike Jonze og Charlie Kaufman eru komnir fram sem kvikmyndagerðarmenn. Þeir eru einfaldlega þeir tveir frumlegustu í dag. Adaptation er þeirra önnur mynd saman og að sumu leyti er hún jafnvel enn þá ruglaðri og súrrealískari heldur en hin frábæra Being John Malkovich. Samt finnst mér hún ekki alveg jafn skemmtileg.

Adaptation fjallar um Charlie Kaufman (já, það er rétt, handritshöfundinn). Charlie (Nicolas Cage) hefur fengið það verkefni, eftir Being John Malkovich, að semja handrit eftir bók Susan Orlean, Orkídeuþjófnum. Charlie lendir í stökustu vandræðum með að gera bókina að kvikmyndahandriti og þjáist af ritstíflu og svefnleysi ásamt almennu óöryggi gagnvart öllum, sérstaklega konum. Hinn sjálfsöryggi en fremur treggáfaði tvíburabróðir hans, Donald (Nicolas Cage aftur) er á sama tíma að gera honum lífið leitt með því að spyrja hann ráða á einhverju afleitu handriti sem Donald er að reyna að böggla út úr sér einmitt þegar Charlie má ekkert vera að því að sinna honum. Á sama tíma fylgjumst við með Susan Orlean sjálfri (Meryl Streep) vera að vinna efni í grein um mann að nafni John Laroche (Chris Cooper), óvenjulegan mann sem stelur orkídeum og ræktar þær og virðist vera sérfræðingur á þessu sviði. Greinin verður að lokum að bókinni sem Charlie er að ströggla við. Líf allra þessara persóna flækist síðan saman, ýmist í handriti eða í alvörunni með óútséðum afleiðingum.

Það er hægt að ímynda sér þessa mynd á tvo vegu. Annarsvegar í hugarheimi persónanna og þá aðallega Charlies eða atburði sem eru að gerast í alvörunni á sama tíma og Charlie skrifar handritið. Hvort sem þið aðhyllist þá er útkoman eitthvað sem þið eigið seint eftir að sjá aftur. Þessi undirfurðulega, súrrealíska, sjálfshæðna, yndislega mynd kemur manni stöðugt á óvart og maður veit aldrei almennilega hvert hún er að fara. Samfara því að vera frumlegasta mynd ársins er þetta sennilega einnig kjarkaðasta mynd ársins.

Bara það eitt að gera jafn skefjalaust grín að sjálfum sér og sinni persónu sem að Charlie Kaufman gerir í handriti sínu er aðdáunarvert. En líka einnig fyrir að leyfa sér að koma fram með allar þessar stórskrítnu, stundum hálfkláruðu hugmyndum og að vera á einum nótum, kúvenda og skipta yfir í eitthvað allt annað. Frábær leikstjórn Jonze og frábært handrit Kaufmans gera þessa mynd að nánast, allt að því meistaraverki. Og leikararnir bregðast afar vel við því að fá loksins eitthvað almennilegt að narta í.

Nicolas Cage hefur ekki verið jafn góður síðan árið 1995 í Leaving Las Vegas. Allt í lagi, hann leikur frekar taugabilaða persónu með lítið sjálfstraust og sjálfsálit. Og hann hefur svo sem gert það áður. En þetta er engin venjuleg steríótýpa. Þetta er alvöru manneskja af holdi og blóði. Og það er einmitt þess vegna sem maður hefur simpatíu með honum af því að maður kannast svo vel við marga af hans vanköntum frá sjálfum sér. Cage leikur einnig bróðir Charlie, Donald (er skáldaður karakter að því er mér skilst) sem er gjörólíkur Charlie og gerir það alveg jafn vel. Og skuggalega góð klipping Eric Zumbrunnen í bland við frábæran leik Cage gerir það að verkum að samleikur Charlie og Donald er alltaf fullkomlega trúverðugur. Meryl Streep er síðan virkilega góð sem Susan Orlean (önnur alvöru persóna) sem verður hugfangin af þessum undarlega manni Laroche sem á yfirborðinu virðist vera algjör sveitadurgur en undir niðri er einstaklega gáfuð og fáguð manneskja. Streep fær frí frá öllum klútamyndunum og sýnir hvers hún er megnug sem leikkona með hugrakkri og mjög góðri frammistöðu. Chris Cooper fer síðan á kostum sem hinn undarlegi Laroche og er þetta hans besta hlutverk síðan hann lék í Octorber Sky. Cooper, sem hefur aðallega leikið harðhausa hingað til sýnir að hann er hinn færasti gamanleikari og leikur sitt hlutverk frábærlega.

Gallinn er að myndin virkar dálítið hálfkláruð. Og síðustu 20 mínútur hennar eru slík kúvending á sögunni að maður veit ekki alveg hvað manni finnst um það. Ef maður tekur það út frá heimspekilegu eða hugarfarslegu sjónarhorni er það snilld. Flest er hálfklárað í lífinu og kannski á það einnig við um handritsgerð. En ef það er partur af eðlilegri framvindu sögu gengur það ekki eins vel upp. Það sem Being John Malkovich hafði hugsanlega fram yfir þessa er að hún var heilsteyptara verk. En þessi mynd er einfaldlega of frumleg, of klikkuð og of djörf til þess að gefa henni ekki toppeinkunn.

Frábær mynd!!!!!!!

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Kaufman er engum líkur
Eftir allt hugmyndaflugið og brjálæðið sem fór í Being John Malkovich yrði maður vafasamur um hvort prakkararnir Charlie Kaufman og Spike Jonze hefðu eitthvað meira af svipuðum gæðum fram að færa. En viti menn, það gerðu þeir, og þá jafnvel betra meira að segja. Adaptation alveg einstaklega sérkennileg og athyglisverð kvikmynd, hún stílar sig svolítið í BJM, en samt ekki. Þetta er mun þroskaðri saga, inniheldur meiri raunveruleika, sem og hluta af (ýktri?) sjálfsævisögu handritshöfundsins. En líkt og með BJM, þá krefst Kaufman að áhorfandinn noti heilann því lengra sem líður á söguna og einmitt á sama tíma verður hún sífellt furðulegri með tímanum. En þessar fjölbreyttu hugmyndir komast þó allavega stórkostlega til skila, þar sem nánast hver einasta gengur upp án nokkurs vafa.

Handritið er í sjálfu sér algjör snilld, enda má segja að það sé í aðalhlutverki og helst það rosalega vel saman ásamt gríðarlegum frumleika og skemmtilegri framvindu, svo ekki síst frábærum húmor. Leikararnir gefa svo öllu hinu ekki neitt eftir. Nicolas Cage hefur alltaf þótt bestur í svona alvarlegri hlutverkum frekar en að vera í heilalausum hasarmyndum og hefur eiginlega aldrei staðið sig betur en hérna, og eignar sér myndina í báðum hlutverkunum sem hinn aumingjalegi Charlie Kaufman (mikið svakalega hefur höfundurinn mikinn húmor fyrir sér) og félagslyndi Donald. Cage nær bara svo vel að aðskilja tvíburanna, einungis með því að leika þá með ólíkum tilþrifum og persónueinkennum, og sýnir það að sumir leikarar sem leika fleiri en eina persónu þurfa ekkert endilega förðun á að halda, bara svo lengi sem að svipbrigðin og leiktaktarnir séu ólíkir, og ég verð að segja, hvernig Cage gerir þetta í þessari mynd, er hreinasta afbragð. Aukaleikarar (Meryl Streep, Chris Cooper, Ron Livingston og Brian Cox) vinna líka heldur betur fyrir kaupi sínu, enda sýna allir verulega sterkan leik, í öllum hlutverkum, stórum sem smáum. Helst vil ég þó hrósa Cooper, sem hefur einnig sjaldan eða aldrei verið eins góður og býr til afar sérstaka persónu sem situr svolítið eftir í manni.

Síðan er það að sjálfsögðu hinn sífellt ringlaði Spike Jonze, sem veit alveg hvað hann er að gera, og heldur þess vegna þétt um taumanna. Ég fullyrði það tvímælalaust um að hér sé verið um að ræða betri mynd heldur en BJM. Sú mynd var kannski ruglaðri en hún hafði þann Akkilesarhæl að innihalda alveg merkilega óviðkunnanlegar persónur sem maður gat engan veginn haldið með. En allavega, þá er Adaptation stórkostlega öðruvísi mynd, og það bendir að sjálfsögðu til þess að ekki allir munu fíla hana. Ég dreg af henni nokkur stig fyrir að drolla svolítið í senunum á milli Streep og Cooper, en það er minniháttar kvörtunaratriði.

9/10 - Tékkið á henni. Hiklaust!

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Adaptation, önnur myndin sem handritshöfundurinn Charlie Kaufman og leikstjórinn Spike Jonze færa okkur, er meistaraverk. Fyrri myndin, Being John Malkovich, var ein af bestu myndum 1999, og í anda hennar fjallar þessi mynd um það hvernig handritshöfundinum Charlie Kaufman gengur illa að fylgja eftir velgengni Being John Malkovich. Eins og það sé ekki nógu furðulegt, þá skrifar hann tvíburabróður handa sjálfum sér, báðir leiknir snilldarlega af Nicholas Cage, sem hefur ALDREI verið betri. Ég vil ómögulega segja of mikið frá myndinni, því stór hluti af ánægjunni er að uppgötva hversu mörg lög Kaufman hefur skrifað ofan í handritið. Það er eins og laukur sem endalaust er hægt að fjarlægja nýtt lag af. Þeir sem fatta endann, og það verða því miður ekki allir, munu fá margfalda ánægju út úr myndinni. Henni er einkar vel leikstýrt af Jonze, sem hefur mjög sjónrænan stíl, og heldur þétt um taumana. Fullt af stórfínum leikurum brillera í hlutverkum sínum, Chris Cooper, Meryl Streep og fleiri, og allt gerir það að verkum að hér er um mun betri mynd að ræða en Being John Malkovich, og örugglega ein af albestu myndum ársins 2003. Það get ég fullyrt, þrátt fyrir að árið sé nýbyrjað. Þvílík snilld.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

18.07.2012

Endurlit: Synecdoche, New York

["Endurlit" er glænýr fastur liður þar sem gagnrýndar eru myndir sem eru hvorki í bíó eða á leiðinni í bíó, til að gefa meiri fókus á eldra efni. Ekki spennó?] ATH. Titill myndarinnar er borinn fram "Si-NEK-do-Kí" ...

18.10.2011

Fyrstu dómarnir á Tintin skotheldir!

Ef þið lásuð fyrirsögnina og hélduð kannski að við værum að plögga forsýninguna okkar á Ævintýri Tinna, þá hafið þið svo sannarlega rétt fyrir ykkur. Vissulega er aldrei leiðinlegt þegar Kvikmyndir.is heldur sýnin...

02.10.2011

Kevin Kline bætist við næstu mynd Charlie Kaufman

Charlie Kaufman vinnur nú hörðum höndum að næstu kvikmynd sinni, Frank or Francis, sem hann mun bæði skrifa og leikstýra; en nú hefur Kevin Kline bæst við leikhóp hennar, sem var ansi áhugaverður fyrir: Þar ber helst a...

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn