Ég var nú ekkert sérlega spenntur fyrir að sjá þessa mynd, enda gáfu sýnishornin til kynna að þetta væri bara eitthvað átakanlegt Hallmark-kellingadrama... En svo var ekki, sem betur fer. Myndin er að vísu átakanleg og allt sem þar fylgir, en hún er býsna fín engu að síður.
Útlitslega séð er myndin sjálf eins og listaverk, og leikararnir vita alveg hvað þeir eru að gera og leggja heilmikið á sig. Þar ber sérstaklega að nefna Sölmu Hayek sjálfa, sem vinnur sér inn óneitanlegan leiksigur, og er hrein unun að fylgjast með henni hérna, vegna hversu vel hún sekkur sig inn í persónu Fridu Kahlo. Hún er bara með öllum ólíkindum og aldrei nokkurn tímann bjóst maður við svona tilþrifum frá henni. Ég tek heldur ekki illa í senur þar sem hún fer úr fötunum. Aldrei!... Annars eru leikarar í minni hlutverkum varla síðri. Alfred Molina er hvílíkur senuþjófur í sinni rullu, og aðrir gæðaleikarar á borð við Geoffrey Rush, Edward Norton og Ashley Judd gera jafnframt góða hluti þrátt fyrir sorglega lítinn skjátíma.
En veikasti punktur myndarinnar er persónusköpunin, sem er eitthvað svo takmörkuð. Myndin fókusar meira á ástarmál Fridu heldur en líf hennar, sem mér finnst ekki virka alveg nógu vel, miðað við hversu áhugaverða manneskju er um að ræða. Síðan finnst manni eins og myndin gefi sér ekki nægan tíma í vissa atburði. Myndin/sagan hraðspólar bara yfir allt líf Fridu án þess að stoppa og útskýra vissa atburði nánar, eins og hún sé að bíða eftir að klárast sem fyrst. Leikstjórinn Julie Taymor fær samt einstakt hrós fyrir að segja söguna á hádramatískan hátt án þess að nokkuð sé farið út í tilgangslausa melódramatík, og þegar svona mynd er um að ræða, þá er það talið mjög gott mál.
Það er svosem alveg öruggt að eyða tveimur klukkutímum í þessa mynd. Bara ekki búast við neinu meistarastykki, og vertu viss um að þú vitir nokkurn veginn hvað þú ert að fjárfesta tímanum í.
6/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei