Þvílíkt konfekt sem þessi mynd er. Ekki einungis er hún ótrúlega flott á að líta heldur segir hún afar óvenjulega og áhugaverða sögu Chuck Barris en samkvæmt hans eigin ævisögu lifði hann tvöföldu lífi. Það má vel vera að hann hafi einungis skáldað þetta til að krydda eigin ævisögu en hvort sem það er þá er þetta góð saga.
Chuck Barris (Sam Rockwell) var maðurinn sem bjó til suma frægustu sjónvarpsþætti í Bandaríkjunum fyrr og síðar eins og The Dating Game (á Íslandi væri það Djúpa laugin) og The Gong Show (núna American Idol). En hin hliðin á lífi hans var sú að hann var óopinber starfsmaður CIA og átti að hafa drepið 33 manneskjur fyrir þá.
Við fylgjumst með æviferli Chuck frá ca. 1953 til 1981. Það sem er mest gegnumgangandi í lífi hans og kannski það besta í því er Penny (Drew Barrymore), hippavinkona hans og kærasta. En Chuck er frekar eigingjarn maður og kann ekki að meta hana almennilega. Stuttu eftir að hann hefur slegið í gegn kemur dularfullur maður til hans, Jim Byrd (George Clooney) sem býður honum að gerast CIA maður á næturnar. Chuck þiggur það og hugmyndin er að eftir þætti eins og The Dating Game þá ferðist parið til ýmissa landa eins og segjum Finnlands, Chuck fylgir með og sér um að leysa einhver vandamál CIA á viðkomandi stað í leiðinni. Hin fullkomna fjarvistarsönnun. Engan á eftir að gruna hann. Chuck kynnist á einni ferð sinni hinni dularfullu Patriciu (Julia Roberts) sem reynist ekki öll þar sem hún er séð. En hversu lengi getur Chuck haldið uppi þessum lífstíl án þess að upp um hann komist og hefur hann einhvern áhuga á þessu líferni sínu í rauninni?
Þetta fyrsta leikstjórnarverkefni George Clooney sýnir að þar er kominn fram nýr kvikmyndagerðarmaður sem er óhræddur við að taka áhættur. Myndin á kvað eftir annað á hættu í að sökkva ofan í fen tilgerðar en sleppur alltaf við það með því að vera stöðugt jafn sprenghlægileg og hún er. Snillingurinn Charlie Kaufman (Being John Malkovich, Human Nature, Adaptation.) skrifar handritið eftir bók Barris og hann og Clooney hjálpast að við að gera myndina eina af bestu myndum ársins og þeirri óvæntustu í leiðinni. Kvikmyndataka Newton Thomas Sigel er hreint æðisleg og bilið á milli hins bjarta og litmikla sjónvarpsheims og hins dökka og drungalega njósnaheims er mjög vel sýnt.
Það sem mér fannst alltaf hinsvegar best við myndina er hvað hún kemur manni stöðugt á óvart. Maður heldur að hún sé að fara í einhverja átt en á næstu stundu kúvendir hún og tekur mann á annan stað sem manni hafði aldrei grunað að hún myndi gera. Það er orðið fátítt að myndir komi mér á óvart svo að ég kann alltaf að meta það örlítið extra þegar þær gera það.
Leikararnir fara einnig á kostum. Sam Rockwell er að mínu mati einn af bestu leikurum sinnar kynslóðar og getur brugðið sér í allra kvikinda líki (allt frá brjálaða fanganum í The Green Mile að taugaveiklaða aukaleikaranum í Galaxy Quest). Þetta er umdeilanlega hans besta hlutverk til þessa og hann gerir því skil ekkert eðlilega vel, líka ef maður tekur tillit til þess að persóna Chuck nýtur ekki alltof mikillar samúðar manns. Drew Barrymore er líka með eina af sínum betri rullum og gerir persónu Penny talsvert dýpri en hún hefði annars orðið. George Clooney er talsvert hlægilegur með þetta hræðilega yfirvaraskegg en á sama tíma ansi óhugnanlegur sem hinn endalaust blíðmálgi en jafnframt miskunnarlausi Jim. Og jafnvel Julia Roberts, sem mér finnst jafnan illþolandi, á góðan dag sem hin dularfulla njósnagella. Það mætti segja mér að það væri Roberts vel að vera dálítið dularfull en hún er venjulega ein af ódularfyllstu og mest óspennandi leikkonum í Hollywood. Og gamli Blade Runner snillingurinn Rutger Hauer bregður fyrir í hlutverki vestur-þýsks njósnara og er þetta sennilega eitt af hans betri hlutverkum frá Blade Runner, þó lítið sé. En enginn skýr þó skærar heldur en leikstjórinn George Clooney en þetta er hreint út sagt frábært byrjendaverk hjá honum.
Confessions of a Dangerous Mind er einfaldlega æðisleg mynd sem kemur stöðugt á óvart. Ég hvet alla til að sjá hana. Ein af bestu myndum ársins.
P.s. Reynið að taka eftir Brad Pitt og Matt Damon í hreint óborganlegum gestahlutverkum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei