Underworld: Evolution er jafn lík forvera sínum og hún er ólík. Umfram allt held ég að viðkomandi bíófari hafi nákvæmlega ekkert með þessa mynd að gera nema að hann hafi fílað fyrstu myndina.
Sjálfur hef ég alltaf varið fyrri Underworld-myndina. Mér þótti hún vel stílísk, spennandi, skemmtilega lagaskipt og yfir höfuð einhver best heppnaða vampírumynd sem hefur komið út í mörg ár. Hún missti sig kannski aðeins í goth-lúkkinu (en sama getur maður svosem sagt um The Crow) en almennt var hún svo miklu meira en bara hefðbundin hasarmynd.
Hún hafði söguþráð, og þá einhvern sem var ekki aðeins notaður sem grunnur fyrir sprengjur, byssur og læti, sem er annað en ég get sagt um framhaldið.
Underworld: Evolution hlakkaði ég lúmskt til að sjá - líka vegna þess að fyrri myndin skildi eftir sig sérstakan, þótt kannski pínu óþarfan, cliffhanger-endi.
Niðurstaðan olli mér vissum vonbrigðum, en í heildina get ég svosem ekkert sagt að ég sé endilega ósáttur. Sagan, eins og hún er meðhöndluð, kemur ágætlega út, þótt meiri áhersla hefði mátt verið lögð á hana. Útlit og andrúmsloft er álíka nett og gotneskt og í fyrri umferð, og leikararnir ekki síður flottari. En samt...
Persónulega fannst mér þessi mynd falla of mikið í mainstream-gryfjuna. Hún einblínir alltof mikið á hasar og virkar almennt þreyttari í uppbyggingunni. Hún er meira straightforward heldur en nr. 1, ásamt því að vera hvergi eins innihaldsrík. Það eru vissar fléttur til staðar, en ekkert sem skilur eftir högg. Myndin má eiga það að vera talsvert blóðugri og yfirdrifnari. Síðan í þokkabót (...og talandi um yfirdrifnar senur) er boðið upp á sjóðheita ástarsenu þar sem þau Kate Beckinsale og Scott Speedman fækka heldur betur fötum (eflaust skrautleg tilraun hjá leikstjóranum Len Weisman, þar sem að hann er giftur Kate).
Leikararnir fá annars ekki mikið að gera núna, þ.e.a.s. annað en að hlaupa um og sífellt útskýra söguþráðinn. Það koma góðar senur við og við á milli Beckinsale og Speedman, og nokkrar þeirra hitta til manns. Þau ná prýðilega saman og sambandið kemur einkum vel út í þróuninni.
Handritið er – viti menn – einn veikasti hlekkurinn, en ég bjóst svosem við því. Ég setti út á handritið í fyrstu myndinni líka, en hér er það verra. Merkilegast er hversu dauð samtölin eru. Allir tala í svokölluðum exposition-ræðum (sem þýðir að þau segja bara nákvæmlega það sem þau þurfa að segja með það í huga að áhorfandinn skilji hvað er á seiði - m.ö.ö: útskýra plottið!).
Stíllinn á þessari mynd er reyndar mun ólíkari heldur en áður, ef hugsað er út í það. Ég dýrkaði hversu köld, dimm og litlaus fyrri Underworld-myndin var. Hérna er meira eða minna búið að snúa því við. Gott eða slæmt? Erfitt að segja. Bara öðruvísi.
Sem blóðug hasarmynd stendur þessi mynd vel undir væntingum. Hasarinn er bráðskemmtilegur, bæði ofvirkur og yndislega tilgerðarlegur.
En sem beint framhald af einni ferskustu vampírumynd síðustu ára er niðurstaðan heldur dauf þótt úrlausn sögunnar komi ágætlega út.
6/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei