Náðu í appið
Bönnuð innan 6 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

The Holiday 2006

Frumsýnd: 8. desember 2006

138 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 50% Critics
The Movies database einkunn 52
/100

Iris er ástfangin af manni sem er að fara að giftast annarri konu. Hinum megin á hnettinum áttar Amanda sig á því að sambýlismaður hennar hefur verið henni ótrúr. Konurnar hafa aldrei hist og búa langt í burtu frá hvorri annarri, en hittast á netinu á húsaskiptavefsíðu, og ákveða að skiptast á húsum yfir jólahátíðina. Iris fer heim til Amanda, í sumarið... Lesa meira

Iris er ástfangin af manni sem er að fara að giftast annarri konu. Hinum megin á hnettinum áttar Amanda sig á því að sambýlismaður hennar hefur verið henni ótrúr. Konurnar hafa aldrei hist og búa langt í burtu frá hvorri annarri, en hittast á netinu á húsaskiptavefsíðu, og ákveða að skiptast á húsum yfir jólahátíðina. Iris fer heim til Amanda, í sumarið og sólina í Los Angeles, en Amanda fer í snjóinn uppi í sveit í Englandi. Stuttu eftir að þær koma á staðinn, þá gerist það sem þær ætluðu sér alls ekki - þær hitta báðar menn sem þær verða hrifnar af. Amanda hrífst af hinum myndarlega bróður Iris, Graham, og Iris, með hjálp handritshöfundarins Arthur, hittir kvikmyndatónskáldið Miles. ... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

"I'm looking for corny in my life." - En verður sa
Þegar að kemur að væmni í kvikmyndum láta flestir strákar sig hverfa fljótt. Sumar myndir eru einhvern veginn bara gerðar til að láta mann skæla eins Notebook og Message in a Bottle. En einstaka sinnum poppar upp mynd sem er vissulega mjög væmin en er svo mikið meira en það að maður áttar sig ekki almennilega á því. The Holiday er ein af þessum myndum.

Nancy Meyers er einn afkastamesti framleiðandi Hollywood í flokki rómantískra gamanmynda. Hún bæði leikstýrði og skrifaði The Parent Trap, Something‘s Gotta Give og og It‘s Complicated og svo leikstýrði hún einnig What Women Want og skrifaði Father of the Bride I & II. Þær myndir hennar sem ég hef séð eiga það allar sameiginlegt að þó að rómantík og væmni spili stóran þátt þá er það aðallega persónusköpunin og atburðarrásin sem dominerar. Í The Holiday er Nancy bæði við völd í handritsskrifunum og í leikstjórastólnum.

Ég sá þessa mynd upprunalega fyrir löngu síðan því að ég varð einfaldlega að sjá hvernig Jack Black yrði í henni en hún vakti þá athygli mína á einu. Það hertekur mig í hvert skipti sem ég horfi á hana hvað persónusköpunin er sterk hér. Hver einasta persóna þjónar tilgangi og setur sinn stimpil á söguna og einnig á verklega þáttinn í heildarmyndinni sem ég hef aldrei séð áður. Ég fer nánar útí það á eftir.

Söguþráðurinn er mjög skemmtilegur þó svo að nokkrar klisjur fái að laumast með en það er allt í lagi. Myndin fjallar um hina ensku Iris og hina bandarísku Amöndu sem að báðar standa á tímapunkti í ástarmálum sínum. Kærasti Amöndu hélt framhjá henni og hún henti honum út og fyrrverandi kærasti Iris sem hún heldur ennþá mjög (of) góðu vinasambandi við trúlofaði sig án þess að segja henni frá því. Þær kynnast svo á ferðamálasíðu þar sem þær semja um að skiptast á heimilum næstu tvær vikur sem vill svo til að er yfir jólahátíðina. Amanda fer úr glæsivillunni sinni í Los Angeles í lítið kot í Surrey og Iris úr sveitarsælunni í höll. Ekki líður á löngu fyrr en þær fara að kynnast fólki á ókunnuga staðnum og skemmtileg atburðarrás fer í gang.

Eins áður var sagt er persónusköpunin og þ.a.l. frammistaða leikarana sem stendur uppúr hér og hjálpar atburðarrásinni áfram. Cameron Diaz fer með hlutverk Amöndu og er óhætt að segja að þetta sé með betri frammistöðum hennar. Amanda er mjög rugluð í lífinu og hefur einnig þann böggul að bera að geta ekki grátið. Þetta gerir Cameron ekki auðvelt fyrir því erfitt er að leika tilfinningalega flókna persóna og mega ekki gráta. Allt smellpassar samt hjá henni og fær hún stóra fjöður í hattinn frá mér.
Jude Law fer hlutverk Graham bróður Iris sem að Amanda hittir fyrsta kvöldið sitt í Surrey. Graham er þessi týpíski enski sjarmör og Jude þarf nú ekki sækja langt í þann karakter. Hins vegar hef ég stundum sagt að það sé ákveðinn eiginleiki að geta sagt væmnar línur þannig að þær hljómi ekki eins klisjulega. Cameron og Jude eiga mörg mjög væmin samtöl í myndinni en þeim tekst mjög vel að koma þeim senum frá sér án þess að ég fái kjánahroll.
Einnig verð ég að minnast á þær Miffy Englefield og Emmu Pritchard. Þetta eru tvær leikkonur sem enginn veit hverjar eru og ég þurfti að fletta upp nöfnunum þeirra en þær eiga tæpar tíu mínútur í myndinni algjörlega skuldlaust og stela senunni af Jude og Cameron. Þær fara nefnilega með hlutverk dætra Graham og þó þær séu eiginlega bara í einu atriði eru flestir sem ég hef heyrt tala um myndina sammála um að það atriði standi upp úr.

Hin sagan í myndinni er hjá Iris sem leikin er af hinni stórfenglegu Kate Winslet. Allir sem að hafa séð eina mynd með henni vita að hún bara fræðilega getur ekki leikið illa. Persóna Iris er athyglisverð því að hún kastast á milli að vera vælandi og skærbrosandi. Persónur með svona miklar skapsveiflur geta orðið pirrandi en í höndum Kate er eiginlega ekki hægt annað en að kalla þenna eiginleika Iris krúttlegan.
Iris kynnist tveimur karakterum í sínu frí en annar þeirra er Miles sem leikinn er af Jack Black. Miles er samstarfsmaður fyrrverandi kærasta Amöndu og rekst hann á Iris þegar hann er að ná í dót fyrir vin sinn. Það er synd að Jack Black leiki ekki oftar svona lágstemmda karaktera því að hann er ótrúlega góður í myndinni og kom mér gífurlega á óvart.
Einnig hittir Iris Óskarsverðlaunarithöfundinn Arthur Abbott sem leikinn er af goðinu Eli Wallach. Þessi karakter er mikilvægur í myndinni til að brjóta aðeins upp rómó þemað en á sama tíma koma fram skemmtilegar skoðanir frá honum sem styrkja þemað líka. Eli Wallach er kominn vel á aldur enda var hann 91 árs þegar The Holiday kom út en það bitnar ekki á frammistöðunni og sýnir hann okkur enn einu sinni skólabókardæmi um hvernig á að fara með texta.

Ég nefndi hérna í byrjun að margar persónurnar setji sinn stimpil á verklega þátt myndarinnar. Ég allavega upplifði það þannig og ég skal útskýra af hverju. Handritið í myndinni er rosalega vel skrifað en textinn er oft mjög háfleygur og flottur ef ekki bara pínulítið ljóðrænn. Það getur því ekki verið tilvijun að bæði Arthur, Iris og Graham vinna við ritstörf. Á nokkrum tímapunktum í myndinni sjáum við skemmtilegar klisjur (aðallega hjá Amöndu) og einnig kemur inn trailer-raddsetning til að brjóta upp formið. Þetta er augljóslega gert vegna þess að Amanda vinnur við að klippa bíóstiklur. Svo að lokum er tónlistin í myndinni (sem er í höndum meistara Hans Zimmer) alveg á gæsahúðsstigi jafnt tónlistin sem er samin fyrir myndina og sú sem kemur annars staðar frá. Hún setur mjög sterkan svip á myndina og þá sérstaklega vegna þess að Miles vinnur sem kvikmyndatónskáld.
Handrit, tónlist og annað skraut eru þættir sem maður tekur oftast eitthvað eftir en mér finnst maður tengjast þeim sterkari böndum af því að persónurnar í myndinni vinna við þá.

The Holiday er mynd sem hefur tekist að skapa sér sess í hugum margra sem jólamynd og þó svo að hún sé það vissulega á einhvern hátt er þetta einnig bara hugguleg heimilisleg mynd sem hægt er að skella í tækið á hvaða árstíma sem er. Væmni, grín og almennir kvikmyndatöfrar hlutfallast mjög jafnt hér og skapa mjög vel gerða mynd.

7,5/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn