Allir sem hafa lágmarksvit á kvikmyndum munu vera sammála um það að Director's Cut-útgáfan af Kingdom of Heaven er hundraðfalt betri en sú upprunalega. Þeir sem mótmæla þeirri fullyrðingu hafa ekki hundsvit á góðri frásögn, persónusköpun eða framvindu. Þetta ER epíska stórverkið sem Gladiator átti að vera, og þó svo að ég hafi ágætlega hátt álit á þeirri mynd, þá fæ ég ekki það sama út úr henni og þessari. Að Ridley Scott skuli ekki hafa rotað aðstandendur Fox kalda - eftir að þeir slátruðu myndinni hans sumarið sem hún kom út - mun ég aldrei skilja. Þeir tóku umfangsmikla, grípandi og skrambi ljóðræna sögu og breyttu henni í tæplega tveggja og hálfs tíma trailer. Myndin var jú, ótrúlega flott, en mér var skítsama því ég fann ekkert til með persónunum og var álíka sama um söguna.
Þessi þriggja(+) tíma útgáfa hefur allt í sér sem myndina vantaði áður, sem þýðir að hún bætir upp fyrir nánast alla gallanna. Myndin hættir að snúast um teprulegan járnsmið sem verður skyndilega að hetju og verður í staðinn að þýðingarmikilli sögu um stjórnmál og ungan riddara sem vill efla loforð sín. Orlando Bloom er kannski aðalpersónan áfram, en myndin fer að snúast meira um allan hópinn núna, þar sem Jeremy Irons, Alexander Siddig, Liam Neeson, David Thewlis, Michael Sheen, Brendan Gleeson og Eva Green fá miklu meira að gera. En núna, fyrst að efnisinnihaldið er loks orðið mun betra, er miklu meiri ástæða til að dást að metnaðarfullu framleiðslunni og tæknibrellunum. Orrusturnar eru líka kröftugri, sem er sérstakt því ég er að horfa á sömu senur og ég horfði á árið 2005 þegar mér var sama um hvað myndi gerast í lokin. En bara það að gefa persónunum meiri dýpt getur skipt öllu varðandi hvort þú heldur með mönnunum eða ekki, og Scott hefur klárlega verið meðvitaður um það frá byrjun.
Eftir að hafa séð þessa útgáfu verð ég meira pirraður út í hina upprunalegu. Það efni sem var klippt út er skömmustulegt, og stærsti feillinn var að klippa út það mikilvægasta sem átti sér stað í sögunni hennar Evu Green. Það er ákveðin sena sem skiptir SVO miklu máli fyrir persónu hennar (og af hverju hún lætur síðan eftirá eins og hún gerir) að það að skera hana út er álíka sjokkerandi og að taka burt senuna í Fight Club þegar Norton kemst að "nýrri hlið" að sjálfum sér. Semsagt, í bíóútgáfunni áttum við skyndilega bara að fatta af hverju Green hafði breyst svona rosalega, og ekkert var sagt til um það. Hafa þessir heilalausu framleiðendur eitthvað vit á kvikmyndagerð?? Það er líka absúrd að fjarlægja þá einu setningu sem Bloom á þar sem hann gefur í skyn að hann hefur áður barist. Þessi eina lína gerði myndina mun trúverðugri fyrir mér, því annars höldum við bara að einhver "random" járnsmiður geti bjargað heilli borg. Líklegt.
Guði sé lof fyrir DVD, segi ég nú bara. Ég er orðinn þreyttur á því að stúdíó séu alltaf að eyðileggja gæðamyndir bara svo að lengdin verði styttri svo "mainstream-ið" fari að sjá þær. En Kingdom of Heaven átti aldrei að vera mainstream-mynd! Hún var auglýst eins og hún væri í svipuðum dúr og Troy, þar sem Bloom var aðaláhersla markaðssetningarinnar. Hvílíkt bull! Mér finnst líka súrt að eftir öll þessi ár hefur enginn lært af mistökum sínum. Lítið t.d. bara á Blade Runner: Director's Cut, eða lengri útgáfurnar af Aliens, The Abyss, Almost Famous og Daredevil (þrjár af þessum fjóru myndum voru hakkaðar niður af Fox). Það er ekkert að því að framleiðendur vilji meiri pening, en þá ættu þeir ekkert að fjárfesta í svona myndir til að byrja með ef þeir vilja bara FM-hópanna, og læra að markaðssetja svona myndir rétt.
Ef að Gladiator gat orðið að Óskarsmynd, þá hefði Kingdom of Heaven vel getað orðið það líka. Myndin hefði átt sér lengra líf hefði þriggja(+) tíma útgáfan verið gefin út frá upphafi. Í staðinn munu aðeins takmarkaðir hópar af kvikmyndaáhugamönnum leita hana uppi. Ég ætlaði ekki sjálfur að nenna að sitja yfir myndinni aftur en eftir að félagi minn skipaði mér að sjá hana og hamraði á því að hún væri miklu betri sló ég til, og sá sko ekki eftir því. Ástæðan af hverju ég mun ekki gefa þessari mynd tíuna er sú að það er eitt tiltekið skipreikaatriði sem er alveg hræðilega illa gert og hefur það ekki verið lagfært í þessari útgáfu (bömmer!). Þetta lítur út eins og ljót flashback-sena, og Scott hefði vel mátt nýta sér meiri tíma í að lagfæra það. Annars brilliant!
9/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei