(Ath. Þessi umfjöllun inniheldur minniháttar spoilera. Betra að hafa varann á)
Það er ekki skrítið að mainstream hóparnir kjósi The Incredible Hulk fram yfir upprunalegu Hulk-myndina frá 2003; Hún er hraðari, háværri og meira straightforward, sem eru fínir kostir í sjálfu sér en ég myndi jafnframt bæta við lýsinguna "þynnri," en það er líka frekar væg lýsing á því hversu gífurlega mikil þunnildi þessi mynd er. Kallið mig hallærislegan, en ég persónulega fíla Ang Lee-myndina miklu betur og tel hana ennþá í dag vera eina af betri Marvel-myndunum. Ef ekki, þá er hún tvímælalaust með þeim frumlegri og almennt áhugaverðari. Sú mynd er vissulega ekki fyrir alla, en það sem að mér finnst hún hafa fram yfir nýju myndina er að hún tekur sinn tíma í að byggja upp atburðarás í kringum trúverðugar - og þrívíðar - persónur. Einnig finnst mér brellurnar flottari, hasarinn eftirminnilegi og tæknivinnslan (þ.á.m. brenglaði, en samt vandaði, klippingarstíll hennar) koma mun betur út.
The Incredible Hulk er vel gerð hasarmynd annars vegar, en nákvæmlega það að hún bjóði ekki upp á margt annað en tæknibrellur og sprengjur þykir mér ekki endilega vera góður hlutur. Persónusköpun er algjörlega lögð til hliðar og nánast engin persóna út alla myndina fær nægilegt svigrúm til þess að anda almennilega. Þær persónur sem þetta bitnar hvað mest á eru einmitt tvær mikilvægustu; Betty Ross (Liv Tyler) og Emil Blonsky (Tim Roth). Ross er algjörlega vanskrifuð persóna og endar uppi sem stereótýpíska kærastan og Blonsky fær svo takmarkaða dýpt að hann kemur út sem dæmigert illmenni og fær hvorki samúð né skilning frá áhorfandanum. Roth stendur sig að vísu vel, en hann fær ekki mikið að gera annað en að vera sífellt reiður. Edward Norton er reyndar góður sem Bruce Banner og vinnur vel úr því sem hann hefur. William Hurt er ágætur þrátt fyrir þunnan karakter, og í raun gerir hann ekki neitt sem Sam Elliot gerði ekki í hinni myndinni. Stærsti mínusinn er þó hiklaust Liv Tyler, en burtséð frá því að vera hreinlega pirrandi í hlutverkinu sínu, þá bara passar hún ekki.
Hasarinn í myndinni er þokkalegur þótt brellurnar séu stundum ekkert sérstakar og (eins og ég tók fram hér að ofan) eiginlega verri í þessari 2008 útgáfu heldur en þær voru fyrir fimm árum síðan. Það verður að teljast nokkuð skondið. Leikstjórinn Louis Letterier (Danny the Dog, Transporter 2) fær hrós fyrir góðan hraða þótt að meðhöndlunin á efnisinnihaldinu sé allt önnur. Mér skilst þó að þetta sé ekki alfarið leikstjóranum að kenna, en framleiðendur heimtuðu víst að myndin yrði klippt niður um góðan hálftíma og var mörgum mikilvægum persónuaugnablikum fórnað fyrir hraðari keyrslu. Ekki óalgengt þegar um svona stóra mynd er að ræða, en eftir hvernig fór með Daredevil (sem að tapaði heilum hálftíma af söguþræði) finnst mér hálf furðulegt að Marvel hafi ekkert lært af mistökum sínum.
En þrátt fyrir áðurnefnda galla varð ég e.t.v. fyrir mestum vonbrigðum með lokabardagann á milli Hulk og Abomination, sem ég hafði heyrt svo góða hluti um. Þetta var ekki almennilegur slagur! Abomination lamdi Hulk í klessu þar til á síðustu stundu. Frekar veikt að mínu mati. Að vísu var þetta meira fullnægjandi lokabardagi heldur en var í Iron Man.
Lokasenan með gestahlutverki Roberts Downey Jr. sem Tony Stark var síðan algjör óþörf. Ég ætla ekki einu sinni að þykjast neita því að það hafi ekki verið frekar nett að sjá Stark stíga inn í sama heim og Hulk (með tilvonandi Avengers mynd í huga), en þetta gerði ekki neitt fyrir myndina sjálfa og fyrir fólk sem að hefur ekki hugmynd um hvað Ultimate Avengers er, þá getur þetta skilið eftir frekar súrt eftirbragð. Betra hefði verið að geyma senuna þar til eftir lokatextann, svipað og Iron Man gerði með Nick Fury cameo-ið. Áhugasamir hefðu vitað af því, en fyrir hina hefði engin hætta verið á ruglingi.
Það er oft frekar spes að kommenta á það að sumar myndir mættu vera lengri, en þessi hefði klárlega þurft á því að halda. Ég vona að Marvel gefi einn daginn út lengri útgáfu af þessari mynd með senunum sem að myndu bæta við smá meira kjöti á beinið. En þegar öllu er á botninn hvolft er The Incredible Hulk þokkaleg leið til þess að drepa tímann, en fyrir þá sem hafa áhuga á aðeins óhefðbundnari og e.t.v. dýpra áhorfi myndi ég frekar mæla með Ang Lee-útgáfunni.
5/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei