Náðu í appið

Inhale 2010

(Run for her Life)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 22. október 2010

100 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 38% Critics
Rotten tomatoes einkunn 46% Audience
The Movies database einkunn 6
/10
The Movies database einkunn 39
/100

Paul og Diane eiga dóttur sem glímir við erfiðan lungnasjúkdóm og þarf lungnaígræðslu eigi hún að lifa af. Þau fá litla hjálp frá heilbrigðisyfirvöldum í Bandaríkjunum og þurfa að fara aftast á biðlista, sem gerir vonir dóttur þeirra um að lifa af afar litlar. Í stað þess að gefast upp ákveður Paul að leita annarra leiða til að bjarga lífi... Lesa meira

Paul og Diane eiga dóttur sem glímir við erfiðan lungnasjúkdóm og þarf lungnaígræðslu eigi hún að lifa af. Þau fá litla hjálp frá heilbrigðisyfirvöldum í Bandaríkjunum og þurfa að fara aftast á biðlista, sem gerir vonir dóttur þeirra um að lifa af afar litlar. Í stað þess að gefast upp ákveður Paul að leita annarra leiða til að bjarga lífi hennar og fer yfir landamærin til Mexíkó til að semja við fólk þeim megin um líffæraflutning, algerlega án nokkurra leyfa og með töluverðri áhættu fyrir sjálfan sig. Málin flækjast svo fljótlega upp að því marki að Paul þarf að keppa við tímann og setja líf sitt í stórhættu í þeirri von að bjarga lífi dóttur sinnar.... minna

Aðalleikarar

Svipaðar myndir


Gagnrýni (1)

Æ, Balti
(Ath. Þessi umfjöllun jaðar við það að spoila - engin smáatriði en ég gef ýmislegt í skyn. Betra að skella viðvörun á)

Mér þykir það pínu athyglisvert hvernig Inhale nær lúmskt að halda áhuga manns fyrsta klukkutímann eða svo áður en hún sekkur út í tóma tjöru í lokaþriðjungnum og toppar sig síðan rækilega með hryllilegum endi sem á sér nánast ekkert efnislegt samhengi við heildina. Myndin er vissulega vel gerð, á köflum spennandi og allan tímann vel leikin en handritið er ferlega stirt og götótt svo ekki sé minnst á það hversu langsótt og kjánaleg sagan er á mörgum stöðum. Þetta er eins og að horfa á nokkra þætti af 24 í bland við sjónvarpsmyndadrama sem reynir að berja ofan í þig boðskap á síðustu stundu og þar af leiðandi ætlast hún til þess að hún skilji eitthvað eftir sig fyrir þig til að hugsa um. Það gengur ekki og ef ég á að vera hreinskilinn þá fannst mér tilraunin vera asnalega ódýr.

Baltasar Kormákur hefur mér alltaf þótt vera góður leikari en ekki meira en ágætur leikstjóri. Ég hef ekki enn séð mynd eftir hann sem hefur toppað hans fyrstu, 101 Reykjavík, og það er líklega vegna þess að mér finnst myndirnar hans vera fullkaldar (á röngum stöðum) til að mér geti orðið annt um þær. Þær eru allar vel gerðar en flestar eru einfaldlega bara leiðinlegar, niðurdrepandi og ábótavant í efnistökunum. Og slöppustu myndirnar eru allt þetta þrennt. Inhale er sem betur fer ekki jafn þunglynd og maður myndi halda. Hún hefur góðan hraða, tónlist sem gefur henni takt og byggir upp ágætis "í kapphlaup við tímann" fíling. Ég fór samt að detta reglulega út úr myndinni um leið og söguþráðurinn fór leiðir sem mér fannst bara alltof langsóttar, og það tengist því t.d. hvernig aðalpersónan fær sínar upplýsingar og kemst á milli staða.

Endirinn eyðilagði líka allt sem myndin hafði verið að byggja upp. Maður skilur alveg hvað hún er að segja manni en miðað við aðstæður og sérstaklega atburðarásina á undan finnst mér lokaniðurstaðan alveg glæpsamlega ótrúverðug. Baltasar er augljóslega að reyna að starta þýðingarmikilli opinni umræðu (þar sem spurningin er einfaldlega: Var rétt ákvörðun tekin??) en gallinn er bara sá að þessi skilaboð passa ekkert við þrillerinn sem þessi mynd er að reyna að vera. Þetta hefði KANNSKI virkað í góðu drama, sjónvarpsmynd eða jafnvel hér hefði handritið betur skrifað þennan endi og gefið okkur aðeins meiri innsýn í af hverju ákveðnar gjörðir áttu sér stað, í stað þess að skella þessari blautu tusku framan í okkur og klippa síðan strax í kreditlistann (illa gert af þér, Balti). Ég reyni að segja ekki frá *of* miklu en það hefði munað helling ef við hefðum fengið t.d. samræður á milli Dermots Mulroney og Diane Kruger svo að fyrrnefndi aðilinn gæti gefið áhorfendum smá skilning á þær ákvarðanir sem voru teknar. Það hefði reyndar líka skipt miklu hefði myndin fókusað aðeins meira á börnin sem koma endinum mest við og mjólkað semsagt samúðina aðeins. En frekar en að skilja eitthvað átakanlegt högg eftir sig þá er þessi endir bara algjört "cop out" sem virtist hafa einungis það markmið að koma áhorfendum á óvart. Ef leikstjóri ætlar að gera áhorfendum sínum það að draga fram svona endi er eins gott að hann hafi hreðjarnar í það að gera hann almennilega, í stað þess að segja bara „...og svo gerðist þetta í lokin – ókei bæ.“

Nei, án djóks – lærði enginn NEITT af Taken?? Í þessari stöðu myndi maður gera bókstaflega hvað sem er til að sjá barnið sitt lifa af. Siðferðislegar pælingar dílar maður svo við eftirá. Ég veit að þetta eru tvær ólíkar myndir (eða hvað?), en mér fannst bara þessi endir eiga heima í allt annarri kvikmynd. Það böggar mig síðan bara ennþá meira að þessi mynd hafi flutt þessi skilaboð svona illa hér. En þegar á heildina er litið er lokahlutinn það fyrsta sem maður hugsar um þegar maður gengur út af Inhale, og vegna þess að hann skilur svo biturt bragð eftir sig verður maður samstundis á móti restinni því hún missir nánast allt sitt gildi.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sjá allar gagnrýnir
Skrifa gagnrýni
Skrifa gagnrýni
Fyrirsögn
Senda inn
(Anda rólega, getur tekið smá tíma að fara yfir)
Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn