Náðu í appið
26
Bönnuð innan 12 ára

Iron Man 2 2010

Frumsýnd: 30. apríl 2010

It's not the armor that makes the hero, but the man inside.

124 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 72% Critics
The Movies database einkunn 57
/100

Nú þegar heimurinn veit af því að Tony Stark og Járnmaðurinn eru einn og sami maðurinn, eykst pressan frá ríkisstjórninni, almenningi og fjölmiðlum um að hann deili tækni sinni með hernum. Stark er ekki tilbúinn að láta hernum í té tæknileyndarmálin á bakvið járnmanninn, og ákveður að stofna til sambands með Pepper Potts og James "Rhodey" Rhodes til... Lesa meira

Nú þegar heimurinn veit af því að Tony Stark og Járnmaðurinn eru einn og sami maðurinn, eykst pressan frá ríkisstjórninni, almenningi og fjölmiðlum um að hann deili tækni sinni með hernum. Stark er ekki tilbúinn að láta hernum í té tæknileyndarmálin á bakvið járnmanninn, og ákveður að stofna til sambands með Pepper Potts og James "Rhodey" Rhodes til að berjast gegn nýjum óvinum. ... minna

Aðalleikarar

Sabbath Bloody Sabbath
Fyrri Iron Man myndin er að mínu mati frábær og því bjóst ég við talsverðu af framhaldsmyndinni. Iron Man 2 stenst svo sannarlega undir væntingum og fyrir hvern þann sem hefur lesið myndasögurnar, eins og ég, þá er þetta algjört yndi að horfa á. Hér tökum við upp þráðinn hálfu ári eftir atburði fyrri myndarinnar þegar Tony Stark(Robert Downey Jr) lendir í basli með að hafa búninginn sinn í friði fyrir yfirvöldum auk þess sem tækið sem hann er með á bringunni og heldur honum lifandi fer að virka eitthvað skringilega. Rhodey(Don Cheadle) gerist War Machine til að aðstoða okkar mann og skúrkarnir Justin Hammer(Sam Rockwell) og Ivan Vanko/Whiplash(Mickey Rourke) vinna að áætlun um að rústa Stark enterprises. Robert Downey Jr leikur Tony Stark af mikilli innlifun eins og í fyrri myndinni og mér finnst Don Cheadle vera alveg ágætlega sannfærandi sem arftaki Terrence Howard. Sam Rockwell er mjög fínn og minnir talsvert á Jeff Bridges í fyrri myndinni. Mickey Rourke finnst mér vera alveg ótrúlega góður sem Ivan Vanko og hann hefur ekki verið svona svalur síðan ég veit ekki hvenær. Gwyneth Paltrow og Scarlett Johannson leika síðan Pepper Potts og Black Widow og geislar af þeim báðum. Jon Favreu er í hlutverki Happy Hogan auk þess að leikstýra og það kann hann. Tæknibrellurnar eru fyrsta flokks og er nóg af þeim en aldrei skyggja þær á söguna heldur er pláss fyrir bæði. Það er mikið að gerast í Iron Man 2 en aldrei of mikið enda vissi Jon Favreu alveg hvað hann var að gera. Það er ekkert að þessari mynd. Myndasögumynd eins og þær gerast bestar. Fullt hús.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Snildar mynd með góðum leikurum
Mér fannst þessi mynd algjör snild og ég ef sjaldan verið eins ósammála Tomma og núna þessi mynd hefur allt sem góð ofurhetjumynd þarf og meira en það. Flottir búningar, flottar bardaga senur, heitar stelpur sem geta lamið alla í spað og flottir leikarar sértaklega Mickey Rourke, Robert Downey Jr. og Samuel L. Jackson.
Þegar maður hefur svona góða leikara saman í svona mynd getur maður ekkki fengið annað en frábæra skemmtun.

Söguþráður myndarinar: Nú þegar heimurinn veit af því að Tony Stark og Járnmaðurinn eru einn og sami maðurinn, eykst pressan frá ríkisstjórninni, almenningi og fjölmiðlum um að hann deili tækni sinni með hernum. Stark er ekki tilbúinn að láta hernum í té tæknileyndarmálin á bakvið járnmanninn, og ákveður að stofna til sambands með Pepper Potts og James "Rhodey" Rhodes til að berjast gegn nýjum óvini Ivan (Mickey Rourke).

Þessi mynd er alveg eins góð og fyrsta myndin og ég mæli með henni fyrir alla sem fíluðu fyrstu myndina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Stundum töff, stundum massív óreiða
Þegar fyrri Iron Man-myndin kom út fyrir tveimur árum síðan lenti ég í algerum minnihluta með því að segja að hún væri ágæt, en ekki GEÐVEIK! (eins og langflestir – og þar á meðal hinir hörðustu gagnrýnendur – töldu hana vera) Hún hafði sína kosti en yfir heildina var hún frekar dæmigerð og (dirfist ég að segja það?) auðgleymd. Robert Downey Jr. stal auðvitað senunni í mynd sem hefði verið gríðarlegt miðjumoð hefði hann ekki verið á svæðinu. Það fer líka rosalega í mig hvað strúktúrinn og almennt sagan er mikið afrit af Batman Begins. Ekki láta eins og þið hafið ekki tekið eftir því!

Menn verða að fyrirgefa það ef ég fór ekki á Iron Man 2 með rugl jákvæðu hugarfari. Ég auðvitað vonaðist eftir traustri afþreyingu, en frekar vildi ég láta koma mér á óvart heldur en að stilla væntingar eitthvað hátt. Ég hallaðist þó meira að bjartsýni heldur en svartsýni þar sem Marvel-framhaldsmyndir hafa oftast verið betri en forverarnir. Það er líka nánast sjálfsagður hlutur í tilfelli (ofur)hetjumynda. Fyrstu myndirnar þurfa oftast að axla þá byrði að kynna persónur, bakgrunn og m.a.s. heiminn, sem yfirleitt hámar upp skjátíma og skilur lítinn tíma eftir fyrir alvöru fjörið. Í seinni lotunum er yfirleitt meira frjálsleg frásögn, sem í mörgum tilfellum býður upp á ófyrirsjáanlegri atburðarás. Ég get hiklaust sagt það að Iron Man 2 sé ekki eins týpísk í frásögn og sú fyrsta. En þrátt fyrir að það sé fínn kostur í sjálfu sér, þá er leitt að segja frá því að myndina skortir það sem virkilega skiptir máli: Gamanið!

Ég get a.m.k. hrósað fyrri myndinni fyrir að hafa traust flæði og ákveðna orku. Þessi er býsna flöt og alveg merkilega sparsöm á hasarinn þegar á heildina er litið, sem er undarlegt miðað við það að hér sé um pjúra afþreyingarmynd að ræða. Við fáum alveg nett aumingjalegan (og að mínu mati ALLTOF stuttan) bardaga á Formúlubraut snemma í fyrri helming, en síðan kemur varla neitt fyrr en á síðasta korterinu (ekki nema þið teljið ákveðin kómísk slagsmál með á milli tveggja bestu vina – sem mér fannst frekar skondið, en mátti gera betur). Lokahasarinn er reyndar helvíti flottur en (alveg eins og ég nefndi áður) tekur alltof fljótt enda, og þá sérstaklega bardaginn við aðalillmennið. Mér finnst það vera heldur slappt fyrir mainstream sumarhasar/ofurhetjumynd að geta ekki framkallað fullnægjandi skammt af hávaða.

Mér væri samt skítsama um litla hasarmagnið ef myndin hefði eitthvað annað vitsmunalegt upp á að bjóða, en það gerir hún ekki. Handritið þykist vera mjög snjallt og telur sig vera að gera margt gagnlegt í einu. En nei... Myndin er bara troðin. Kannski ekki alveg eins pökkuð og t.d. Spider-Man 3 var, en hún engu að síður reynir að gera allt of mikið við of lítinn tíma. Það er jafnframt skondið hvað það virðist vera mikið í gangi þrátt fyrir að það sé varla nokkur vottur af söguþræði til staðar. Það virðist greinilega ekki hafa verið pláss fyrir neinn slíkan. Það er bara alltof mikið af persónum og samtímis reynir handritið að koma fullmiklum upplýsingum til skila á of stuttum tíma, hvort sem það tengist persónum eða upphitun fyrir hina væntanlegu Avengers-mynd. Það fer líka pínulítið í mig hvernig myndin ætlast of mikils til af áhorfendum sínum, til dæmis bara með því að leyfa Nick Fury (Samuel Jackson) að hoppa inn í miðja mynd án þess að það sé verið að minna mann á það *hver* hann er og nákvæmlega *hvað* það er sem hann gerir. Það er varla yrt á hann heldur. Jon Favreau getur ekki ætlast til þess að ALLIR (þ.e.a.s. þeir sem eru ekki myndasögunördar) hafi séð senuna sem kom eftir kreditlistann í fyrstu myndinni. Það er bara bjánalegt.

Leikararnir gera samt helling fyrir myndina, en þó ekki nærri því eins mikið og þeir ættu að gera. Robert Downey feilar ekki frekar en fyrri daginn, þótt ég vildi að handritið hefði gefið honum fleiri fyndnar línur. Það er annars dásemd að sjá fagfólk á borð við Mickey Rourke, Don Cheatle (sem tekur við Rhodey-hlutverkinu af Terrence Howard), Scarlett Johansson og Sam Rockwell á svæðinu. Þau skilja öll eitthvað eftir sig en manni finnst samt eins og þau máttu gera miklu, miklu meira. Cheatle af öllum fannst mér mátt fá aðeins meiri athygli þar sem hann er greinilega mikilvægari karakter í þetta sinn. Og talandi um það... Hvernig í ósköpunum stóð á því að Rhodey gat bara allt í einu lært að fljúga um leið og hann fór í búninginn sem tók Tony Stark nokkuð margar tilraunir til þess að mastera?? Ég veit ekki hvort ég á að kalla þetta handritsgalla eða leti í leikstjóranum þar sem hann augljóslega pældi ekkert í því sjálfur.

Iron Man 2 má eiga það að vera metnaðarfull, en þegar á heildina er litið finnst mér þetta vera skólabókadæmi um mynd sem reynir að gera alltof mikið og endar með því að skila ósköp ómerkilegri og eiginlega frekar tómri niðurstöðu. Ég vildi að hún hefði tekið betri myndasögumyndirnar til fyrirmyndar með því að kafa örlítið dýpra ofan í aðalkarakterinn, þ.e.a.s. persónuleika hans og erfiði. Myndin reynir að gefa Tony Stark alvöru vandamál en eftir ákveðinn tíma er eins og hún nenni ekki lengur að pæla í þeim. Reddingin er líka vægast sagt kjánaleg, og vísindalega séð algjör brandari.

Þó svo að það séu nokkur drullugóð atriði og fáein mjög fyndin (atriðið með pennanum var helber snilld) þá er svo margt sem vantar upp á til að gera þetta að verðugri sumarafþreyingu. Sumir myndu kannski kalla þetta "nitpick" í mér, en ástæðan fyrir þessari krufningu minni er einfaldlega sú að ég náði aldrei almennilega að sogast inn í þessa svokölluðu rússíbanareið og þess vegna fóru allir litlu hlutirnir að angra mig. Bestu afþreyingarmyndirnar eru þær sem fá þig til að reglulega missa þig úr gleði og útiloka heilbrigðan hugsunarhátt. Favreau og Downey ættu að eiga miklu betri mynd(ir) í sér heldur en þetta.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Miklu heitara járn.
Þeir hamra járnið meðan það er heitt þarna í Hollywood enda aldrei þekktir fyrir neitt annað. Iron Man eitt sló í gegn fyrir tveimur árum enda skemmtileg og létt ofurhetjumynd. Það var því augljóst að þeir fylgdu henni eftir og hafa margir beðið spenntir eftir framhaldinu.

Nýju myndinni svipar til forvera hennar; senu uppbyggingin og myndatakan er til að mynda í sama stíl. Það verður samt þessari mynd til framdráttar að tilfinningar Tony Stark verða sjáanlegar áhorfendum. Það var eitthvað sem vantaði áður og gefur nú karakternum hans mun meiri dýpt. Samt er það alveg á hreinu að maðurinn er gjörsamlega óútreiknanlegur.

Söguþráðurinn þætti kannski mörgum þunnur. En þrátt fyrir þunnt innihald heldur myndin manni allan tímann.

En stærsti kostur framhaldsins er án efa illmennið. Ivan Vanko kemur sterkur inn og heldur myndinni lengi vel uppi. Þetta er líklega einn svalasti vondi kall sögunnar og ef einhver komst nálægt því að skyggja á Downey þá er það Mickey Rourke.

Nú þarf ekki nema að líta á trailerinn til þess að sjá hversu hlaðið efnið er af flottum tæknibrellum og sprenginum. Það eru svo sem engar nýjungar í myndaframleiðslu en lokamínúturnar eru vissulega mikið sjónarspil.


Þessi mynd er alveg í takt við tíðarandann. Svona vill fólkið hafa myndirnar í dag og svona finnst Hollywood best að gera þær. Þetta er ekki flókin samsetning en hún virkar.

Skemmtilegt handrit sem er laust við flóknar flækjur, helsjúkur leikur og fáránlega svalar aðalpersónur ( Tony og vondi kallinn), sexy bombur og mikið að slágsmálum og sprengingum!
Iron Man 2 skilur kannski ekki mikið eftir en þetta er mynd sem öllum þætti gaman að kíkja á. Sérstaklega í bíó!

__________
Það þarf engann að undra að þriðja myndin sé nú þegar í vinnslu og eftir kreditlistann voru gerð skýr skil á framhaldinu. Nú er því bara hægt að bíða spennt eftir næstu mynd og sjá hvað Jon Favreau lætur Tony lenda í næst.

-ER
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Jafngóð og fyrsta
GÆTU LEYNST E-H LITLIR SPOILERS

Þessi mynd kom mér smá á óvart enda bjóst ég ekki við að hún myndi toppa fyrstu myndina sem er ekkert svakaleg en samt fín. Þessi mynd er jafngóð, ef ekki aðeins betri. Það er meiri humór í henni, miklu meiri og aðeins meiri hasar, sérstaklega í endann sem er stútfullur af sprengingum.

Leikararvalið er gott og Sam Rockwell er óþolandi sem Hammer (jákvætt) og stelur senunni í atriðunum sem hann er í, fyrir utan Robba Downey. Mickey Rourke er finn en ekki meiri en það. Svo er Robert Downey Jr., hann er meistari. Hann smellpassar í hlutverk Tony Stark og er einfaldlega stórkostlegur og bráðfyndinn. Svo kom Scarlett Johanson... eða eitthvað. Hún er fín en eitthvað svo tilgangslaus fyrr en í endann þegar hún þarf að berjast við nokkrar vonda kall en annars, tilgangslaus. Gwyneth Paltrow, sem er SPOILER ekki kýld í andlitið ENDAR er góð en þrátt fyrir nóg af skjátima skilur hun ekki mikið eftir sig. Ekki viss hvort það sé aulahúmor eða auglýsing en hún er að drekka Dr.Pepper á tveim mismunandi stöðum í myndinni (Hún heitir Pepper Potts í myndinni).

Jon Favreau er góður hasarleikstjóri og hefur sannað það hérna. Annað sem hann hefur sýnt fram á er að hann er með athyglissýki. Hann er jafnstórt hlutverk og Scarlet Johansson-eitthvað, kannski ekki alveg en samt. Hann fær mikinn skjátíma en gerir eitthvað í þessari í staðinn fyrir að vera bara þarna eins og í fyrstu myndinni.

Yfir allt er þessi mynd aðeins skemmtilegri þrátt fyrir fyrirsjáanlegt plot og stereotýpur sem vonda kalla. Svo er líka týpíska vinir-ekki vinir-vinir sagan einhversstaðar í miðjum átökunum.

Myndin hefur það sem þarf, afþreyingargildi Í BOTN!

8/10
Mæli vel með þessari
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir

Myndir í sömu seríu

Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn