Hafið þið einhvern tímann velt því fyrir ykkur hvernig niðurstaðan yrði ef Taxi Driver væri tekin, tætt burt allt sem er töff við þá mynd og henni síðan skellt saman við Paul Blart: Mall Cop?
Nei? Ekki ég heldur, enda væri það óhuggulega súr tilhugsun, en það vill svo til að Observe and Report minnti mig einmitt á þetta. Hún er reyndar ekki alveg sami skíturinn og Mall Cop, en hún á heldur ekki betur skilið en að lenda í sömu hrúgu af lágkúrulegum og misheppnuðum gamanmyndum og hún.
Ég fíla venjulega svartar komedíur, en þessi mynd er eitthvað allt, ALLT annað. Hún fer svo langt fram yfir línur dökka húmorsins að hún verður eiginlega bara ósmekkleg og hreint út sagt ljót. Hver einasta persóna er gerð að annað hvort sálarlausum skíthæl eða þroskaheftum einstaklingi, eða hvoru tveggja samtímis. Hvað brandara varða, þá sjáum við fólk lamið til blóðs, menn blóta eins og það sé þeirra eigið tungumál, gert er miskunnarlaust grín að fötluðum, perri nokkur fróar sér úti á götu og stelpu er hálfpartinn nauðgað eftir áfengisdauða. Það er sama hversu alvarlegt málefnið er, ef gert rétt er alltaf hægt að gera grín að því. South Park er gott dæmi um smekklaust grín sem nær að slá á rétta strengi en Observe and Report virkar eins og siðlaus brandari á minnihluta með glatað (eða ekkert) "punch-line," og þegar brandararnir eru eins skepnulegir og hér, þá er lítið eftir annað en að fylgjast með mönnum ganga í gegnum mismunandi stig af siðleysi, og manni líður ekkert sérstaklega vel með það. Þetta eru svipuð viðbrögð og ég fékk þegar ég fyrst heyrði þennan brandara:
Hvað kallast 100 svertingjar á hafsbotni?
Góð byrjun...
Ég hef líka tekið eftir að Seth Rogen er aðeins góður í skömmtum. Hann hefur hingað til sýnt sömu hlið sína aftur og aftur, og að gefa honum heila kvikmynd reynir harkalega á þol áhorfandans. Rogen virkar best þegar hann tilheyrir einhverju tvíeyki, eins og í Superbad, Knocked Up og Zack & Miri. En um leið og maðurinn fer að leika í 3-4 myndum á ári og breytir ekki einu sinni um persónuleika, þá fer maður að efast um leikarahæfileika hans. Kómíska tímasetningin hjá honum er misjöfn, og það veltur allt eftir handriti. Observe and Report staðfestir þessa fullyrðingu. Rogen er takmarkað fyndinn í henni, hann hefur heldur enga spes útgeislun og manni líkar ekki við hann í eina sekúndu.
Í Zack & Miri og þá sérstaklega í Knocked Up var Rogen skemmtilegur þar sem hann breyttist úr steiktum lúða yfir í afar ljúfan gaur. Hérna er maðurinn bara ógeðfelldur, punktur! Hann er þrjóskur, ofbeldishneigður, fordómafullur og hrokafullur út í allar áttir og mér til mikillar undrunar reynir handritið að fá okkur til að líka vel við hann í lokin, sem er að mínu mati ómögulegt. Ef eitthvað þá vildi ég sjá þennan karakter þjást sem mest, og sama gildir um nánast alla (fyrir utan persónuna Nell). Það er nánast ævintýralegt hversu mörg skítseiði eru í þessari mynd, og flest þeirra eru í verslunarmiðstöðinni, sem hún gerist á.
Tónlistarvalið (fannst sérstaklega töff hvernig þeir notuðu Pixies-lagið "Where is my Mind?") og klippingin var eitt af því fáa sem hélt áhuga mínum meðan ég horfði á myndina, annars leiddist mér ekki bara, heldur leið mér ömurlega. Ef eitthvað skal marka þessa mynd þá er heimurinn MJÖG vondur og ógeðslegur staður þar sem næsti maður er líklegur til þess að gera ljóta hluti við þig. Gleymum því heldur ekki að skv. myndinni leysir ofbeldi flest öll vandamál. Það er mér alveg óskiljanlegt hvernig öryggisverðirnir í þessari mynd komust svona auðveldlega upp með það að gera það sem þeir gerðu (að gefa saklausum manni rafstuð og lemja hjólabrettakrakka í klessu? Ekki líklegt). Áhorfandinn veit auðvitað betur, eða hann ætti að gera það, og ég veit að þetta er allt gert í (vondu) gríni, en það þýðir lítið að vera smekklaus af engri ástæðu nema þá bara til að sjokkera fólk, sem myndin reynir allan tímann að gera.
Hefði myndin ætlað sér að vera einhvers konar ádeila hefði ég skilið þetta betur, og kannski er hún það, en það sem ég persónulega fékk út úr Observe and Report var bara vond lífsreynsla og ennþá verri æfing í gríni. Gat ekki beðið eftir því að myndin varð búin sem er þó skondið vegna þess að fyndnasta atriðið er einmitt í lokin.
Ef þið viljið horfa á vel heppnaða smekklausa gamanmynd - sem einnig gerist í verslunarmiðstöð - um skíthæl sem maður elskar að hata, þá hika ég ekki við að mæla frekar með Bad Santa.
3/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei