Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

Whip It 2009

(Bliss, Roller Girl)

Frumsýnd: 8. janúar 2010

Be Your Own Hero

111 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 86% Critics
The Movies database einkunn 68
/100

Bliss Cavendar er feimin og óhamingjusöm stelpa sem býr í smábæ í Texas. Hún er orðin þreytt á foreldrum sínum og þráir tilbreytingu í lífinu. Hún sér auglýsingu fyrir línuskautakeppni og ákveður samstundis að taka þátt. Til að foreldrarnir frétti þetta ekki, ákveður hún að skrá sig undir nafninu Babe Ruthless. Lífið tekur snögglega breytingu... Lesa meira

Bliss Cavendar er feimin og óhamingjusöm stelpa sem býr í smábæ í Texas. Hún er orðin þreytt á foreldrum sínum og þráir tilbreytingu í lífinu. Hún sér auglýsingu fyrir línuskautakeppni og ákveður samstundis að taka þátt. Til að foreldrarnir frétti þetta ekki, ákveður hún að skrá sig undir nafninu Babe Ruthless. Lífið tekur snögglega breytingu í kjölfarið. ... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Raunsærri titill = Seen It
Nokkrum sinnum á ári koma gæðaleikstjórar eins og Christopher Nolan, Quentin Tarantino, Coen-bræður ásamt fleirum og búa til alveg einstakar kvikmyndir þar sem þeir gera sitt besta til að fjarlægja allar klisjur úr handritunum fyrir tökur. Ofannefndu mennirnir eru einmitt þekktir fyrir að forðast klisjur eins og þeir mögulega geta og ef einhverjar slíkar eru auðséðar, þá er þeim hent. Einhvers staðar - eflaust á einhverjum Hollywood-ruslahaugi - hljóta síðan þessar útskúfuðu klisjur að safnast saman. Svo gerist það, þó svo að það sé mjög sjaldan, að þær byrji að festast allar saman og áður en maður veit af því, þá er skyndilega búin að fæðast bíómynd, algjörlega út frá þessum klisjum. Ekki einn einasti vottur af hugmyndaflugi, heldur bara gamlar formúlur sem jafnvel hinir hefðbundnustu leikstjórar vilja forðast. Whip It er einmitt þannig mynd. Hún er heilt troll af klisjum og maður þarf að píra augun til að sjá eitthvað sem hefur ekki sést áður.

Ég er ekki að segja að þessi mynd sé alslæm, en í alvörunni, hver er tilgangurinn með henni?? Það er enginn leikari hér til staðar sem hefur ekki staðið sig mun betur í einhverju öðru og efniviðurinn hefur einnig mótað öflugri niðurstöðu margoft áður. Ég er ekki að ná að sjá af hverju Drew Barrymore ákvað að leikstýra þessari mynd sjálf. Hún hefur oft framleitt myndir (t.d. hina ávallt mögnuðu Donnie Darko) og flestar þeirra hafa verið mun hugmyndaríkari en þessi.

Whip It hefði getað orðið að ágætis afþreyingu hefði meiri vinna verið lögð í að gera persónurnar eftirminnilegar. Við erum nefnilega ekki að fylgjast með persónum, heldur leikurum. Juliette Lewis, Alia Shawkat (Maeby úr Arrested Development), Kristen Wiig (sem ég er orðinn rosalega skotinn í), Zoe Bell og Barrymore sjálf eru allar voða flatar. Maður man bara eftir þeim vegna þess að maður veit hverjar þær eru, á meðan óþekktara liðið gleymist alveg strax. Ellen Page er í sjálfu sér fín, þótt hún sé bara að leika afslappaðri útgáfuna af Juno. Ég fílaði að vísu Daniel Stern (hvar í helvítinu hefur hann verið??), Marciu Gay Harden og Andrew (bróðir Owens og Luke) Wilson. Þau voru aðeins meira að reyna að "leika," annað en allir hinir.

Whip It er saklaus mynd handa stelpum sem eru of ungar til að þekkja klisjurnar. Boðskapurinn er góður þrátt fyrir að vera fyrirsjáanlegur og tónlistin er heldur ekki sem verst. Ég skil samt ekki af hverju Barrymore ákvað að kalla myndina "Whip It." Titillinn er ófrumlegur og þurr. Minnir líka rosalega á myndina Stick It. Derby Girl (nafnið á bókinni) var mun betra.

5/10

PS. Horfið frekar á trailerinn. Hann sýnir bókstaflega alla myndina, og nánast í réttri röð líka.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn