Náðu í appið
81
Bönnuð innan 16 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Predators 2010

(Predator 3)

Frumsýnd: 14. júlí 2010

Fear is Reborn

107 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 65% Critics
The Movies database einkunn 51
/100

Málaliðanum Royce (Brody) er rænt og hann sendur alla leið á fjarlæga og ókunna plánetu, ásamt sjö öðrum manneskjum. Í ljós kemur að allir nema einn þeirra eru kaldrifjaðir morðingjar, málaliðar og ofbeldisfangar. Einn þeirra er hins vegar læknir sem missti æru sína í hneykslismáli. Þeir þekkjast ekkert innbyrðis og enginn skilur af hverju þeim hefur... Lesa meira

Málaliðanum Royce (Brody) er rænt og hann sendur alla leið á fjarlæga og ókunna plánetu, ásamt sjö öðrum manneskjum. Í ljós kemur að allir nema einn þeirra eru kaldrifjaðir morðingjar, málaliðar og ofbeldisfangar. Einn þeirra er hins vegar læknir sem missti æru sína í hneykslismáli. Þeir þekkjast ekkert innbyrðis og enginn skilur af hverju þeim hefur verið smalað saman, hvað þá hver gerði það. Hópurinn reynir að komast að því hvað hann er að gera á þessari fjarlægu skógarplánetu og verður Royce nokkurs konar leiðtogi þeirra. Fljótlega kemur þó í ljós að þetta fólk er samankomið þarna í afar hrottalegum tilgangi: þau eiga að vera bráð fyrir ný afkvæmi geimvera sem eru aðeins þekktar sem „Rándýr“ („Predators“), en það er sannarlega nafn með rentu, því hér eru á ferðinni verur sem eru sterkari, færari og hættulegri en nokkuð sem þessir morðingjar hafa nokkurn tíma kynnst. ... minna

Aðalleikarar

Mikil vonbrigði
Predators er mynd sem ég beið eftir með eftirvæntingu en síðan bara ekkert varið í hana. Fyrsta Predator myndin er mjög góð og sú seinni algjör snilld en þessi er handónýt. Það var kannski ekkert galin hugmynd að láta þessa mynd gerast á heimaplánetu Predatoranna(þó að ég hefði frekar viljað láta þetta gerast í borg aftur) en þá verður að hafa hana meira krassandi og öðruvísi umhverfi. Fyrir utan þetta gríðarstóra tungl og eitthvað sem líktist Júpíter á himninum þá gat þetta alveg eins verið frumskógur á þessari plánetu. Söguþráðurinn er hálf latur og Predatorarnir eru ekki nærri því eins flottir eða ógnandi og í fyrri myndunum tveimur. Leikararnir hér gera fátt að viti, enginn karakter áhugaverður og mér stóð hálfpartinn á sama um þá. Adrien Brody er kannski ágætur og á einhvern þátt í því að ég gef þessari mynd eitthvað í einkunn. Nimrod Antal eyðilagði nánast allt sem Stephen Hopkins hafði byggt upp með meistaraverkinu Predator 2. Ef til vill hefði þessi mynd verið skárri ef að Robert Rodriguez hefði leikstýrt eins og upphaflega stóð til en með þessum efnivið og handriti var þetta dæmt til að mistakast. Svona vildi ég ekki sjá þriðju Predator myndina. Hún er þó gory og blóðug og fær eina stjörnu fyrir það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Mynd sem ÁTTI að vera betri
Ég hugsa að það hefði verið betra fyrir Predators hefði Robert Rodriguez kosið að leikstýra henni (í stað þess að gegna einungis hlutverki framleiðanda), því hinn ungversk-ættaði Nimród Antal er ekki alveg að gera vinnuna sína. Þessi leikstjóri er að mínu mati algjör meistari í miðjumoði. Það leynist hugsanlega góður spennumyndaleikstjóri í honum einhvers staðar en eins og er þá tekst honum ómögulega að byggja upp spennu eða skapa almennilegt afþreyingargildi. Vacancy og Armored undirstrika þá staðreynd mjög vel, og reyndar Predators líka. Myndin má eiga það að hafa nokkrar flottar senur, gott ofbeldi og fína leikara, en þeir kostir gera samt því miður lítið þegar fáein lykilhráefni eru hvergi að finna.

Eins og það sé ekki nógu slappt hvað myndin er lengi að hrökkva í gang þá er seinni hlutinn voða upp og niður. Myndin er allan tímann ágæt en aldrei spennandi eða tryllt skemmtileg, eins og hún *ætti* að vera. Það er náttúrulega ekkert verra að hafa gott lið af leikurum á svæðinu, og sem betur fer eru persónurnar nógu skrautlegar til að drepa ekki alla stemmninguna. Adrien Brody gerir sitt besta til að vera harður nagli og nær markmiði sínu bærilega. Aðrir sýna smá lit (Walton Goggins er t.a.m. nokkuð góður) en maður kynnist aldrei neinum almennilega. Ég var samt fyrir mestum vonbrigðum með hversu lítið hlutverk Danny Trejo fékk. Hefði haldið að Rodriguez af öllum mönnum myndi gefa Machete meira til að gera.

Predator-kvikindin sjálf (í öllum sínum stærðum og gerðum) virtust heldur aldrei vera meira en tölvubrellur eða menn í búningum með tonn af (fjarstýrðum?) farða. Ég óttaðist aldrei þessar skepnur hér og fannst þær jafnvel byrjaðar að verða frekar leiðinlegar því lengra sem leið á myndina. Það er ferlega misheppnað að Rodriguez og Antal gátu ekki gert neitt nýtt eða áhugavert með þessa Predatora, alveg sama hversu fjölbreyttir þeir voru. Handritið býður einstaka sinnum upp á eitthvað sniðugt en oftast fer of mikill tími í ekki neitt. Hasarinn er ánægjulegur og stundum yndislega subbulegur en þar sem ég festist aldrei við sætisbrúnina býst ég ekki við að hann tolli lengi í minninu.

Predators hefði átt að vera glæsileg "comeback" mynd fyrir vörumerkið. Eina sem henni tókst að gera var að toppa seinustu AvP mynd, og það hefði nánast hvaða leikstjóri sem er getað blindandi. Ég skal reyndar viðurkenna það að ég held frummyndina frá 1987 ekki alveg í jafn háu áliti og flestir. Hún er fín afþreying en skelfilega einhæf. Ég bjóst við því að Rodriguez myndi taka fyrirbærið og massa það aðeins upp. En eins og ég sagði þá hefði hann átt að leikstýra myndinni, því hann hefði líklegast sprautað smá adrenalíni í þetta og gefið sögunni þá keyrslu sem hefði hentað. Hann hefur sýnt hvernig réttast er að gera svona einfaldar, blóðugar afþreyingarmyndir. Ég vona þá bara að hann geri eitthvað jákvætt með Machete í staðinn.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir

Myndir í sömu seríu

Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn