Náðu í appið
Bönnuð innan 12 ára

I Am Number Four 2011

(I Am Number 4)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 18. febrúar 2011

109 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 33% Critics
The Movies database einkunn 36
/100

John Smith er óvenjulegur unglingur. Hann er flóttamaður á flótta undan miskunnarlausum óvinum, sem eru sendir til að drepa hann. Hann skiptir stöðugt um persónuleika, flytur sig frá bæ til bæjar ásamt verndara sínum Henri. John er í hverjum bæ nýi strákurinn með engin tengsl við fortíðina. Í litlum bæ í Ohio hefur John fest rætur, og lendir í óvæntum... Lesa meira

John Smith er óvenjulegur unglingur. Hann er flóttamaður á flótta undan miskunnarlausum óvinum, sem eru sendir til að drepa hann. Hann skiptir stöðugt um persónuleika, flytur sig frá bæ til bæjar ásamt verndara sínum Henri. John er í hverjum bæ nýi strákurinn með engin tengsl við fortíðina. Í litlum bæ í Ohio hefur John fest rætur, og lendir í óvæntum aðstæðum og verður ástfanginn, og hittir fólk sem er líkt honum. Þrjár manneskjur sem eru eins og hann hafa verið drepnar, og hann er númer fjögur.... minna

Aðalleikarar

Geimveruútgáfan af Twilight
Undanfarin ár hafa bíómyndir sem byggðar eru á bókum verið í miklum fókus því stúdíóin eru í leit að einhverju sem skilar inn hagnaði og breytist vonandi í nýjasta æðið. Fantasíur og vampírusögur eru þar efstar á blaði því allir vilja að næsta Harry Potter eða Twilight enda er bæði tvennt orðið að stórum parti í nútímamenningu (gæðamuninn skulum við láta í friði). Tilraunir til þess að gera eitthvað svipað hafa samt verið oftar en ekki misheppnaðar og það er útaf galdrastráknum þar sem við fórum allt í einu að sjá myndir eins og The Dark is Rising, The Spiderwick Chronicles og Percy Jackson. Og hefði Twilight ekki heillað gelgjur upp úr G-strengnum um allan heim hefði þessi flóðbylgja af vampírusögum ekki litið dagsins ljós. I Am Number Four á miklu, miklu meira sameiginlegt við glitrandi vampírurnar heldur en Potterinn en hún fellur engu að síður í þessa kategoríu því það er enginn alvöru metnaður á bakvið gerð hennar. D.J. Caruso (leiksjórinn) og Michael Bay (einn framleiðandinn) eru augljóslega bara að gera tilraun til þess að færa þessar sögur yfir á tjaldið (með fallegu ungu fólki og FM tónlist) til að græða sem mest, ekki til að svala þorsta okkar sci-fi/fantasíunördanna með hágæðavöru.

Ef þið viljið fá nákvæma lýsingu á því hvernig bíómynd I Am Number Four er þá skuluð þið ímynda ykkur strúktúrinn á fyrstu Twilight-myndinni, víxla svo sögupersónunum og láta eins og Edward (geimvera núna í stað vampíru) sé aðilinn sem flytur í smábæinn og laðast að einhverjum þar áður en langt um líður. Svo fer alveg viðbjóðslega langur tími í nákvæmlega ekkert annað en pínlega rómantík og endalausa uppbyggingu sem skilar vægast sagt ófullnægjandi niðurstöðu í lokin. Þessi mynd hefur að vísu margfalt betri hasar upp á að bjóða í lokaþriðjungnum en sequel-bait endirinn er miklu verri, og hann er reyndar það hallærislegur að myndin virkar meira eins og pilot þáttur fyrir sjónvarpseríu heldur en sjálfstæð bíómynd. Handritið er almennt skrifað í þeim dúr eins og það hafi verið ætlunin og jafnvel leikstjórnin hefur þannig brag á sér eins og þetta sé allt úr einhverjum þætti frá CW-rásinni. Leikararnir líta allir vel út (sérstaklega Teresa Palmer – *slurp*) en handritið gefur þeim svo ósannfærandi og stirðar línur að kjánahrollur er óhjákvæmanlegur. Illmennin eru einnig skömmustulega glötuð. Sá eini sem kemst hjá því að líta út eins og algjör auli á skjánum er Timothy Olyphant.

Það er að vísu töluvert dekkri tónn á myndinni en ég átti von á og það er sjaldan ókostur. Sumar senur eru líka nokkuð töff en tíðkast flestar í endanum og það setur stórt mínusstig á afþreyingagildið því lítið annað áhugavert gerist á undan því öllu. Handritið er samt stærsti vandinn. Upplýsingalega séð er skipulagið alveg glatað og reglulega finnst manni eins og hraðinn á frásögninni sé annað hvort of mikill eða of lítill. Stundum er svo fljótt farið yfir mikilvæga hluti á meðan atburðarásin í heild sinni er heila eilífð að komast í gang. Þetta reyndi hressilega á þolinmæði mína, en kannski langaði mig bara í smá hasar því unglingadramað var engan veginn að ná til mín. Ég á enn erfitt með að trúa þessi mynd sé frá sama manni og gerði The Salton Sea. Hún var hörkufín og sýndi að það bjó alvöru leikstjóri í Caruso. Svo fór hann að detta sífellt meira og meira inn í mainstream kvikmyndagerð með tilliti til unglinga, en mér fannst hann samt langt frá því að standa sig eitthvað illa. Disturbia var vel heppnuð og hafði góða kemistríu á milli ungu leikaranna og meira að segja var Eagle Eye ekki svo slæm. Gallar þeirrar myndar komu mestmegnis handritinu við, ekki hans hæfileikum. En ef maðurinn heldur samt áfram á þessu striki þá er eins og hann tapi stöðugt einhverjum hæfileikum með hverri mynd sem hann gerir.

Ég veit ekki einu sinni hverjir eiga eftir að fá mest út úr þessari mynd. Hún er alltof dimm og viðburðarlítil fyrir krakka, of hæg fyrir unglinga sem vilja sjá hasar, ekki nógu einblínd á rómantíkina til að stelpurnar festist við skjáinn og svo er handritið bara alltof bjánalegt og ófrumlegt í augum sci-fi/fantasíunördanna. Hverjir eru þá eiginlega eftir??

Horfið einungis á þessa mynd ef þið elskið tæknibrellur, dýrkið að horfa á fallega unglinga eða eruð grjótharðir Timothy Olyphant aðdáendur. Einhverra hluta vegna er samt alltaf pínu gaman að honum og með hans aðstoð leyfi ég einkunni að skríða upp í afar viðeigandi fjarka.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn