"You know you want it". Slagorð myndarinnar segir allt sem segja þarf. Strange Days er hasarmynd ólík öðrum hasarmyndum. Hún er snilldarlega vel gerð, frábærlega vel leikin og er ekki bara heimsk sprengjumynd. Þú þarft að hugsa til þess að fatta, skilja og kunna að meta þessa yndislegu mynd. Ralph Fiennes leikur Lenny Nero, sleazy gaur sem vinnur fyrir sér með því að selja "notaðar minningar" (of flókið til að útskýra hér). Dag einn fær hann senda eina slíka minningu þar sem vinkona hans sést hrottalega myrt, sama vinkona og hafði áður sagst vera í vandræðum ásamt fyrrverandi kærustu Nero, Faith (Juliette Lewis). Faith er núverandi ástkona ruddalegs plötuútgefanda, Philo (Michael Wincott) sem m.a. gaf út plötur með rapparanum Jeriko One (Glenn Plummer) sem fannst nýverið myrtur. Nero reynir að upplýsa morðið á vinkonunni og verja Faith með hjálp Mace (Angela Bassett) og Max (Tom Sizemore) en er um leið flæktur í morðgátu sem... þið verðið bara að sjá myndina. Ólíkt mörgum sakamálamyndum með mörgum persónum og flóknum söguþráðum valda sögulok Strange Days engum vonbrigðum, þó margir gætu sagt útkomuna vera langsótta (a la Sleepy Hollow eða What Lies Beneath) en allt þetta gengur upp ef atburðarrásin er rakin aftur. James Cameron og Jay Cocks tókst vel upp með handritið þar sem persónurnar eru aldrei í öðru sæti og passar Kathryn Bigelow vel upp á það að stíllinn sé aldrei of mikið á kostnað efnisins. Allir leikararnir standa sig frábærlega, þá sérstaklega Juliette Lewis sem mér finnst alveg mögnuð. Hún fær einnig að syngja tvö lög og gerir það vel. Strange Days er vel gerður, vel heppnaður þriller og á, eins og Roger Ebert segir, örugglega eftir að verða cult-klassík eins og Blade Runner eftir nokkur ár. You know you want it.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei