Náðu í appið
Bönnuð innan 6 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Crazy, Stupid, Love. 2011

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 2. september 2011

This Is Crazy This Is Stupid This Is Love

118 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 79% Critics
The Movies database einkunn 68
/100

Cal Weaver er í góðri vinnu, á fallegt hús og frábæra krakka með konu sem hann elskar. Því miður er sú kona, Emily ekki sammála um að allt sé draumi líkast og biður um skilnað. Cal veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið. Í stefnumótaheiminum er hann hin versta risaeðla og gæti ekki verið óliprari í aðförum sínum við hitt kynið. Hann eyðir öllum... Lesa meira

Cal Weaver er í góðri vinnu, á fallegt hús og frábæra krakka með konu sem hann elskar. Því miður er sú kona, Emily ekki sammála um að allt sé draumi líkast og biður um skilnað. Cal veit ekki hvaðan á hann stendur veðrið. Í stefnumótaheiminum er hann hin versta risaeðla og gæti ekki verið óliprari í aðförum sínum við hitt kynið. Hann eyðir öllum lausum stundum á hverfisbarnum þar sem þrítugi glaumgosinn Jacob tekur hann upp á arma sína og gerir að höslfélaga. Hann tekur hann í yfirhalningu og reynir að fá hann til að lifa lífinu á ný. Þeir tveir eru ekki þeir einu sem leita ástarinnar á röngum stöðum; þrettán ára sonur Cal er yfir sig skotinn í sautján ára barnapíu sinni, Jessicu, en hún er sjálf skotin í Cal. Jacob fellur óvænt fyrir Hönnuh, stelpu sem kærir sig kollótta um sjarma hans en gefur honum alltént séns. Og þrátt fyrir að hafa skipt um útlit til að næla sér í píur hefur Cal ekki tekist að skipta út raunverulegum tilfinningum sínum. En svona er ástin, brjáluð og heimsk.... minna

Aðalleikarar

Nálægt því að vera gæðamynd
Að geta labbað út af rómantískri gaman(drama)mynd sem fer ekki alfarið eftir föstum reglum er eitthvað sem maður getur aldrei fengið nóg af, og hvað slíkar myndir varða er Crazy Stupid Love sennilega sú óvæntasta sem ég hef séð síðan Going the Distance, sem var fyrir ári síðan. Ástæðan er sú að hún er öðruvísi, hreinskilin, oft rosalega fyndin (og þá reglulega, út í gegn - sem gerist ekki oft) og ómótstæðilega heillandi yfir heildina. Hún er aðeins í lengri kantinum en rúllar óvenjulega vel engu að síður.

Kostirnir lyftast síðan á hærra plan þegar maður sér hversu góðir allir leikararnir eru í sínum hlutverkum og það kemur sömuleiðis mikið á óvart að persónurnar eru langflestar athyglisverðar. Flæðið, innihaldið og uppbyggingin minnir einstaka sinnum á rómantískar "ensemble" myndir í líkingu við He's Just Not That Into You og Valentine's Day, nema með töluvert smærri persónufjölda og miklu einbeittari frásögn í kjölfarið. Ef það væri ekki fyrir tvo hundleiðinlega galla myndi ég glaðlega telja að þessi mynd ætti séns í að vera ein sú besta sem ég hefði séð á árinu.

Venjulega læt ég það í friði að kafa út í söguþræði mynda. Mér finnst það oftast vera sóun á plássi og orðafjölda, nema í tilfellum eins og þessu þar sem mikilvægt er að útskýra í stuttu máli um hvað myndin fjallar svo hægt sé betur að útskýra gallana sem draga hana niður.

Myndin fjallar um miðaldra mann, Cal Weaver að nafni, sem stendur í miðjum skilnaði eftir 25 ára hjónaband - eftir að konan hans heldur framhjá honum - og á hann vægast sagt í miklum erfiðleikum með að komast aftur á stefnumótamarkaðinn. Til að bragðbæta söguna er þrettán ára sonur hans yfir sig ástfanginn af sautján ára barnapíu sinni, sem er í raun sjálf hrifin af pabbanum. Cal kynnist kvennagullinu Jacob, sem sýnir honum hvernig karlmenn eiga að klæða sig og næla sér í kvenfólk. Fyrrum eiginkona Cals sér fljótt allt aðra hlið á manninum og verður stóra spurningin sú hvort skilnaður hafi nokkuð verið rétta ákvörðunin.

Ég þoli illa tilviljanir í bíómyndum, nema kannski í gamanmyndum þar sem ekki á að taka atburðarásina mjög alvarlega. Kannski get ég sætt mig við nokkrar smáar eða eina gígantíska í versta falli (fer allt eftir hvernig tenging hennar er við söguna) en Crazy Stupid Love er næstum því drifin af stórum tilviljunum og notfærir sér þær meira að segja tvisvar sinnum í hálfgerðu "plott-twist" formi og koma þær oftast persónutengingum við. Reyndar skal ég alveg játa það að ég sá engan veginn fyrir mér hvert myndin stefndi með karakterinn hennar Emmu Stone, og svarið við því var djöfull óvænt en tilheyrir samt sama vandamáli. Sama með Marisu Tomei, þrátt fyrir að hún hafi verið æðislega fyndin í sínu litla hlutverki.

Leikarahópurinn er almennt óaðfinnanlegur. Steve Carrell sýnir aftur þá frábæru hlið sem seinast sást í hinni vanmetnu Dan in Real Life, og Little Miss Sunshine þar á undan. Ég hef samt aldrei séð hann standa sig betur en hér og tekst manni að finna til með honum og styðja hann strax frá fyrstu senunni. Maður kemur svo mikið til með að halda með Cal í gegnum skilnaðinn að álit manns á fyrrverandi eiginkonunni hans, sem Julianne Moore leikur, minnkar næstum því með hverri senu. Af óskiljanlegum ástæðum ætlast handritið til þess að við viljum sjá Cal og hans fyrrverandi sættast aftur og enda saman í lokin. Mér finnst alls ekki að sagan hefði átt að fara þá leið. Þetta hindrar alla þá þróunarmöguleika sem persónan Cal hefði getað haft, eins og t.d. að líkjast Jacob - "læriföður" sínum - meira, á meðan Jacob verður sífellt mýkri.

Handritsgallarnir hefðu dregið heildina meira niður ef allt annað hefði ekki verið ljómandi fínt. Eins og Carrell sé ekki nógu góður ásamt restinni af leikhópnum þá er Ryan Gosling hátt í fullkominn sem hinn höggþétti Jacob, sem lekur af sjálfsöryggi og töffaraskap. Samband hans við Cal og samspilið sem þeir Gosling og Carrell eiga er hugsanlega áhorfsins virði eitt og sér. Emma Stone heldur áfram að sýna að það býr alvöru leikkona í henni á meðan Julianne Moore minnir mann á að hún sé það og yngstu leikararnir gefa þeim eldri lítið eftir. Mikið svakalega fékk samt Beikonið lítið til að gera. Það er varla hægt að kalla þetta hlutverk.

Þeir John Requa og Glenn Ficarra gera mjög góða hluti með leikstjórnina. Þeir eru löngu komnir á radarinn hjá mér sem eitt af þessu leikstjórateymi sem spennandi verður að fylgjast áfram með, þótt það verði seint hægt að segja að Crazy Stupid Love sé jafn "edgy" mynd og Bad Santa (sem þeir reyndar skrifuðu bara en leikstýrðu ekki) og I Love You, Phillip Morris. En alveg jafngóð og þær engu að síður. Aðeins betri meira að segja. Þeir hefðu kannski átt að aðstoða aðeins með handritið. Dan Fogelman stóð sig vel með það en tilviljanirnar í sögunni koma ekki út eins og annað en handritsreddingar á köflum. Það var alveg efni til staðar til þess að gera eitthvað framúrskarandi úr þessu og afraksturinn ber ýmis merki um helbera snilld. Ég t.d. skrækti úr hlátri eins og þroskaheftur bavíani yfir tiltekinni senu þar sem allar helstu persónurnar koma saman á mettíma.

Myndin er næstum því frábær, en jafnvel þó svo að hún sé það ekki er þetta fyrirtaks deitmynd sem ég get mælt með fyrir ung pör, gömul pör, þá einhleypu og jafnvel alla þá fýlupúka sem eru orðnir þreyttir á hefðbundinni Hollywood-rómantík. Ég efa líka að hinir almennu áhorfendur séu jafn smámunasamir og ég, svo ég segi bara njótið ykkar vel!

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Feel-good mynd ársins
Það kemur ekki oft fyrir að mynd komi sem skartar súpu af stórum leikurum og inniheldur marga söguþræði. Síðasta mynd sem ég sá sem innihélt mikið af stórstjörnum var The Expendables en hún hafði reyndar einungis einn söguþráð. Og áður kom myndin Valentine's Day sem ég var ekki mjög hrifinn af. Annað get ég sagt um Crazy, Stupid, Love. Hún er með fyndnustu myndum sem ég hef séð á árinu en hún hefur þar að auki mjög sterkt handrit, áhugaverða karaktera, frábærar aðstæður og góðan sjarma á bak við sig.

Myndin er leikstýrð af dúóinu Glenn Ficarra og John Requa, sem höfðu áður skrifað myndir á borð við Bad Santa, Cats & Dogs og hinni vanmetnu I Love You, Phillip Morris (sem þeir leikstýrðu líka). Þetta er önnur leikstýrða myndin þeirra og tekst þeim vel upp. Myndin er skrifuð af Dan Fogelman sem hafði mestmegnis áður skrifað teiknimyndir (Cars, Cars 2, Bolt og Tangled). Saman ná þeir að koma með mynd um raunverulegt fólk með raunveruleg vandamál. Ég held að það eina slæma sem ég hef að segja um fólkið er að það voru kannski einn eða tveir karakterar sem hefðu mátt fá meiri skjátíma (allavega Kevin Bacon) og það sem unglingurinn Robbie (leikinn vel af Jonah Bobo) gerir í myndinni hefði mátt túlka ekki alveg svona skömmóstulega. En hefði það ekki verið í myndinni hefði hún verið ennþá minna "crazy", en fyrir mynd sem hefur það orð í titlinum, þá er hún það ekki mikið.

Áhuginn minn við þessa mynd minnkaði ekkert eftir því sem leið á hana, og jafnvel þótt myndin sé nálægt tveimur tímum, þá leið hún eins og 90 mínútur vegna æðislegra aðstæðna, vel settri sögu og trúverðugra samskipta á milli margra karaktera. Ég gef líka Fogelman stóran plús fyrir að koma með æðislegan tvist í síðari hluta myndarinnar. Hintin eru vel falin að ég hafði ekki einu sinni pælt í þessu þegar tvistinn kom. Og miðað við að þetta sé gamanmynd lætur hann vera ennþá betri.

Allir leikararnir eigna sér hlutverkið sitt. Steve Carrel kemur með sína bestu frammistöðu sem ég hef séð síðan 2006 myndin Little Miss Sunshine. Hann gerir svo mikið fyrir karakterinn sinn að það er næstum ógerlegt að ná ekki að tengjast honum. Aðrir leikarar á borð við Julianne Morre, Emma Stone, Kevin Bacon, Ryan Gosling, Marisa Tomei, Jonah Bobo og Analeigh Tipton standa sig líka til fyrirmyndar. Af þeim mundi ég segja að eftirminnilegasti karakterinn er Jacob (Ryan Gosling). Hann er fyndinn, ákveðinn og fær mjög vel heppnaða þróun. Þar að auki er neistarnir milli hans og Emma Stone mjög gott.

Annað við það sem ég hafði gaman við karakteranna er að enginn af þeim er illur eða hægt að kalla antagonist. Þetta er bara fólk sem vill lifa lífi sínu eins og þau vilja það án þess að það særi viljandi einhvern annan, án góðrar ástæðu, þó þau hafi sína stóru galla. Emily (Julianne Moore) heldur framhjá Cal (Carrel) með vinnufélaga hennar, David (Kevin Bacon), en hún fær á endanum slæmt eftirbragð af þessu, og David reynir aldrei að fara á milli þeirra ef það mundi skaða þau. Jacob stundar einnar nætur stand af miklu magni en er alls ekki slæmur maður og hjálpar Carrel að finna sjálfan sig aftur. Jessica (Analeigh Tipton, sem á að vera 17 ára) er sömuleiðis alltaf róleg og indæl, jafnvel (oftast) við Robbie sem er fjórum árum yngri en hún en segist vera ástfanginn af henni (takið samt eftir bókinni sem Bobo er að lesa í skólanum; mynd sem Emma Stone var í fyrra var lauslega byggð á henni og minnst nokkrum sinnum á hana).

Fyrsti hluti myndarinnar var að mínu mati fínn, þrátt fyrir að ég hefði viljað sjá smávegis meiri húmor. En það er í síðari hlutanum þar sem myndin virkilega skín. Myndin er þar fyndnust, hefur trúverðugar þróanir hjá karakterunum og mjög góðan feel-good endi. Fyndnasta atriði myndarinnar er þegar næstum allir karakterarnir hittast á einum stað og útkoman er glæsileg. Myndin gefur sér fínan tíma í að skiptast á milli fyndna og dramatískra atriða (hefði samt ekki kvartað yfir aðeins lengri tíma á milli til að geta melt allt betur), dramað er vel höndlað og myndin er sama og ekkert væmin og náði góðu brosi úr mér í endann.

8/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn